Hunda- og kattahald leyft í félagslegum leiguíbúðum borgarinnar

Stjórn Félagsbústaða hefur samþykkt tillögu Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur um að heimila dýrahald í húsnæði Félagsbústaða.

Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi lagði fram tillöguna fyrir hönd Flokks fólksins í borgarráði þann 16. september í fyrra um að hunda- og kattahald í félagslegum leiguíbúðum yrði leyft.

Tillögunni var vísað til stjórnar Félagsbústaða. Tillagan var tekin fyrir í stjórn Félagsbústaða og óskaði stjórnin eftir að málið yrði skoðað frekar áður en afstaða yrði tekin. Á samráðsfundi fulltrúa Félagsbústaða og Velferðarsviðs var tillagan til umfjöllunar og var það samdóma álit fundarmanna að ekki væri rétt að standa gegn hunda- og kattahaldi.

Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi Flokks fólksins.

Óskað var álits og umsagnar stjórnar samtaka leigjenda á tillögunni. Stjórnin tók málið upp á félagsfundi og þar kom fram að eðlilegt þykir að fylgt sé ákvæðum laga um fjöleignarhús um m.a. að afla þurfi samþykkis annarra íbúa. Þá þykir eðlilegt að útiloka tilteknar tegundir stórra hunda.

Á fundi stjórnar félagsbústaða 2. maí sl. var málið á dagskrá að nýju. Samþykkt var að leyfa hunda- og kattahald samkvæmt almennum reglum og samþykktum íbúa. Samþykktin mun kynnt íbúum í fjölbýlishúsum Félagsbústaða og henni framfylgt í samræmi við lög um fjöleignarhús og samþykktir Reykjavíkurborgar um katta- og hundahald.