Húsleit í beinni útsendingu „gríðarlegur trúnaðarbrestur“

Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabankans, á þingnefndarfundi í síðustu viku.

Bankaráð Seðlabanka Íslands hefur áhyggjur af því hvernig Seðlabankinn og seðlabankastjóri héldu á gjaldeyriseftirliti sínu, meðal annars í Samherjamálinu, og ljóst að margvísleg mistök voru gerð, segir Gylfi Magnússon, dósent og formaður bankaráðsins sem situr fyrir svörum hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á opnum fundi sem stendur nú yfir.

Hann segist taka undir bókun tveggja bankaráðsmanna, þeirra Þórunnar Guðmundsdóttur og Sigurðar Kára Kristjánssonar, sem gagnrýndu harðlega tilraun bankans til að koma í veg fyrir að erindi forsætisráðherra um málið væri svarað. Óundirritað minnisblað frá lögfræðideild hefði verið lagt fram sem ráðið hefði rætt stuttlega en svo eiginlega virt að vettugi og hann væri þeirrar skoðunar að það hefði átt aldrei átt að setja fram.

Gylfi sagði bankaráðið hafa rætt þá staðreynd að einn tiltekinn fjölmiðill, það er Ríkisútvarpið, hafi fengið ábendingu fyrirfram um húsleitir og verið á staðnum með myndatökumenn á tveimur stöðum á landinu. Sagði hann „gríðarlegan trúnaðarbrest“ fólginn í því að stjórnvald sem réði yfir miklum valdheimildum virti ekki trúnað um einstakar aðgerðir og framkvæmdi húsleitir í beinni útsendingu. Slíkt væri „auðvitað algjörlega óþolandi“.

Sagði hann bankaráðið ekki hafa upplýsingar um það hver eða hverjir hefðu lekið upplýsingum um húsleitina til RÚV en vísaði til þess að svo virðist sem Umboðsmaður Alþingis hafi fengið nafnlausar ábendingar sem geti skýrt þau mál betur.