Svo virðist sem húsleit Sérstaks saksóknara og gjaldeyriseftirlits Seðlabankans hjá Samherja og ýmsum tengdum félögum í lok mars árið 2012 hafi verið lögleysa og dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur hafi fallist á beiðni um húsleitarheimild á grundvelli rangra upplýsinga frá Seðlabanka Íslands.
Viljinn hefur rætt við fjölda lögmanna undanfarna daga eftir harkalega gagnrýni Umboðsmanns Alþingis á stjórnsýslu Seðlabankans á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í vikunni, en auk þess virðist mönnum sem bréf Más Guðmundssonar seðlabankastjóra til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, feli í sér viðurkenningu á að húsleitarheimildarinnar hafi verið aflað á fölskum forsendum.
Í bréfi Más til Katrínar segir á bls. 2:
„Jafnframt bárust Seðlabankanum gögn sem studdu þennan grun. Allt þetta gaf sterka vísbendingu en var ekki talið nægjanlegt til að hægt væri að fullyrða að rökstuddur grunur lægi fyrir um brot sem myndi nægja til að beita stjórnvaldssektum eða kæra mál til lögreglu. Það þurfti því að afla nauðsynlegra gagna og rannsaka málið frekar. Því var talið nauðsynlegt að fara í umrædda húsleit að fenginni heimild dómstóla.”
Þessar játningar seðlabankastjóra í bréfi til forsætisráðherra þykja lögmönnum sæta miklum tíðindum, enda hefur bankinn hingað til alltaf haldið því fram fullum fetum að rökstuddur grunur hafi verið uppi um stórfelld brot og húsleitir og haldlagning gagna því nauðsynlegar aðgerðir með tilliti til rannsóknarhagsmuna.
Í 3. mgr. 74. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála segir:
„Skilyrði fyrir húsleit er að rökstuddur grunur leiki á að framið hafi verið brot sem sætt getur ákæru og að sakborningur hafi verið þar að verki, enda séu augljósir rannsóknarhagsmunir í húfi. Það er enn fremur skilyrði fyrir húsleit skv. 2. mgr. að rannsókn beinist að broti sem varðar getur fangelsisrefsingu að lögum.”
Virðist hafa verið veiðiferð
Í athugasemdum með frumvarpinu, áður en það varð að lögum, segir að með skilyrðunum sé „leitast við að koma í veg fyrir að gripið sé til jafníþyngjandi aðgerðar og húsleit er, nema brýna þörf krefji, m.a. með tilliti til eðlis brots.”
Lögmenn sem Viljinn hefur rætt við, segja að yfirlýsing seðlabankastjóra nú sé ekkert annað en viðurkenning á því sem í lögfræðinni hefur verið nefnt veiðiferð, það er að farið er af stað með rannsókn í þeirri von að finna eitthvað, í stað þess að rökstuddur grunur sé um refsiverða háttsemi. Slíkt er brot gegn 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Fjölmargir dómar Mannréttindadómstóls Evrópu hafa fjallað um slíkt. Meðal annars sem Mannréttindadómstóllinn hefur bent á er að nauðsynlegt sé að til staðar sé rökstuddur grunur og að meta skuli tilvist rökstudds gruns samkvæmt fyrirliggjandi gögnum á þeim tímapunkti sem heimild fyrir þvingunaraðgerð er veitt, en ekki síðar.
Á þingnefndarfundinum á dögunum var Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, spurður hvort ekki væri orðið ljóst að framganga yfirstjórnar Seðlabankans í málinu gæti varðað við lög. Hann svaraði því til að hann teldi rétt að virða það að forsætisráðherra væri nú með bréf bankaráðs Seðlabankans til skoðunar og hann vildi bíða með frekari aðgerðir þar til ljóst væri hvað forsætisráðuneytið hygðist gera í málinu.
Seðlabankastjóri og aðrir úr yfirstjórn bankans ásamt formanni bankaráðsins hafa verið boðaðir á opinn fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í næstu viku.