Húsnæðislán verða fryst á Ítalíu til að koma til móts við áhyggjufulla landsmenn sem sitja heima í sóttkví.
Laura Castelli, varafjármálaráðherra landsins, tilkynnti þetta í morgun. Næstu mánuðir verða því afborganalausir.
Ítölsk stjórnvöld hafa hvatt banka til að gefa heimilum og fyrirtækjum slaka á næstunni, enda hefur landið orðið fyrir gífurlegu efnahagstjóni undanfarið sem ekki sér enn fyrir endann á.
Ítalía er það land utan Kína sem verst hefur orðið fyrir barðinu á Kórónaveirunni. Í gær jókst tala látinna úr 366 í 463 og er allur þorri landsmanna í sóttkví og sætir ferða, samkomu og útivistarbanni.