Hvað eiga fyrirtækin að miða við?

Þingmenn Miðflokksins hafa sent forsætisráðherra tillögur og spurningar.

Þingleg meðferð er eftir þegar kemur að björgunarpakka þrjú hjá ríkisstjórninni og sumpart raunar varðandi annan pakkann líka. Enn er ótal spurningum ósvarað og atvinnurekendur og launafólk eiga erfitt með áætlanagerð við slíkar aðstæður. Úr fyrsta björgunarpakkanum er enn ekkert að frétta af boðuðum brúnarlánum með ríkisábyrgð; ekki eitt hð einasta slíkt lán hefur enn verið afgreitt þótt sex vikur rúmar séu frá því þau voru kynnt til sögunnar og segir það kannski sína sögu um mikilvægi þess að hafa leikreglurnar skýrar og framkvæmdina ekki of flókna.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra beindi því til formanna stjórnarandstöðunnar á fundi formanna þann 13 apríl sl. að senda tillögur flokkanna vegna viðbragða við Covid-19 á tölvupósti til Bryndísar Hlöversdóttur ráðuneytissstjóra.

Miðflokkurinn hefur sent forsætisráðherra tillögur sem Viljinn hefur áður greint frá, en þingmenn flokksins hafa jafnframt sent fjölmiðlum afrit af öðrum ábendingum sem fylgdu skeytingu til forsætisráðuneytisins.

Þar er m.a. vikið að ríkisaðstoð er varðar laun í uppsagnarfresti og þeirri spurningu hvaða fyrirtæki falli þar undir og hver ekki.

Þingmenn Miðflokksins spyrja sömuleiðis sérstaklega um tvö atriði, sem mikið sé spurt um:

  • Talað er um 75% tekjufall.  Hvað eiga fyrirtækin að miða við? Apríl í ár m.v. apríl í fyrra? mars m.v. febrúar? Fyrsta ársfjórðung m.v. fyrsta ársfjórðung í fyrra en það er ólíklegt því þá myndi aðgerðin ekki ná utan um þann vanda sem varð til vegna Covid-19. Við heyrum að fólk spyr mikið um þetta.
  • Sagt er að skilyrðið sé að einnig að 75% tekjufallið sé fyrirsjáanlega út þetta ár og þá er hægt að sækja um.  Nú er ríkisstjórninni tíðrætt um að hún skapi ekki tímalínuna heldur veiran vegna óvissunnar. Hvernig eiga þá fyrirtæki að geta spáð fyrir um það? Þurfa fyrirtæki að endurgreiða styrkinn ef tekjufall verður minna en 75% síðar á árinu?