Hvað gerir Jón Gnarr á endasprettinum?

„Gefum honum von“ segir í bráðskemmtilegu tónlistarmyndbandi sem Jón Gnarr forsetaframbjóðandi sendi frá sér fyrir helgi og gæti orðið upptaktur að sterkum endaspretti hans í baráttunni fyrir forsetakosningarnar nk. laugardag.

Myndbandið og lagið er eiginlega svo gott, að það er synd að það hafi ekki markað byrjun kosningabaráttu leikarans og borgarstjórans fyrrverandi. Þarna kemur til öflugt lið listafólks og útkoman eru vel heppnuð og sterk skilaboð, þar sem húmorinn er loksins í aðalhlutverki.

Jón Gnarr hefur réttilega sagt að nóg sé af leiðindum á þessu landi og hermt er að lokadagana ætli hann að gefa allt í baráttuna ásamt stuðningsmönnum sínum. Fróðlegt verður að sjá hverju það skilar í næstu könnunum og svo að lokum þegar talið verður upp úr kjörkössunum.