Hvað telja stjórnendur iðnfyrirtækja mikilvægast?

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Mynd/SI

Stjórnendur iðnfyrirtækja vilja að stjórnvöld beiti sér fyrir stöðugra, hagkvæmara og skilvirkara starfsumhverfi með markvissum aðgerðum til að styrkja framboðshlið hagkerfisins svo hægt verði að efla verðmætasköpun og fjölga störfum. Þetta kemur fram í nýrri greiningu  Samtaka iðnaðarins þar sem farið er yfir  niðurstöður könnunar sem Outcome framkvæmdi fyrir SI meðal stjórnenda íslenskra iðnfyrirtækja.

Úr könnuninni má lesa að stöðugleiki, hagkvæmni og skilvirkni séu hornsteinar góðs samkeppnishæfs starfsumhverfis, að því er greint er frá á vefsíðu samtakanna.

Eftirfarandi kemur fram í greiningunni: 

  • Tæplega 98% stjórnenda iðnfyrirtækja segja að stöðugt starfsumhverfi skipti miklu máli fyrir rekstur þeirra fyrirtækja. Ríflega 94% segja að stöðugt verðlag skipti miklu máli, 92% segja stöðugleiki á vinnumarkaði, 91% segja stöðugt gengi krónunnar og einnig segja 91% stöðugt laga- og reglugerðarumhverfi. Ríflega 98% stjórnenda iðnfyrirtækja segja að næsta ríkisstjórn eigi að leggja mikla áherslu á stöðugleika í starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja.
  • Í könnuninni kemur fram mikil áhersla á aukna hagkvæmni í starfsumhverfi fyrirtækja. Stjórnendurnir segja að lækkun skatta og gjalda skipti miklu fyrir rekstur þeirra fyrirtækja. 89% segja það skipta miklu máli fyrir rekstur þeirra fyrirtækja að næsta ríkisstjórn lækki tryggingagjaldið. 70% segja að lækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði skipti miklu máli, 64% lækkun á eftirlits- og þjónustugjöldum opinberra aðila og 62% lækkun tekjuskatts fyrirtækja. Tæplega 74% segja mikilvægt fyrir rekstur þeirra fyrirtækja að lækka fjármagnskostnað fyrirtækja og 51% mikilvægt að bæta aðgengi fyrirtækja að fjármagni.
  • Í könnuninni kemur fram að stjórnendur iðnfyrirtækja telja að skilvirkni skipti miklu máli fyrir rekstur þeirra fyrirtækja. Aðspurðir að því hvað í því sambandi skipti máli að næsta ríkisstjórn leggi áherslu á segja tæplega 83% að miklu máli skipti að einfalda laga- og reglugerðarumhverfi fyrirtækja, ríflega 73% auka skilvirkni í framkvæmd eftirlits opinberra aðila og 69% að innleiða enn frekar rafræma stjórnsýslu. Þessu til viðbótar segja 47% mikilvægt fyrir rekstur þeirra fyrirtækja að dregið sé úr samkeppnisrekstri opinberra aðila en ekki nema 17% segja að það skipti litlu máli.

Könnunin var gerð á meðal stjórnenda aðildarfyrirtækja Samtaka iðnaðarins dagana 19.-31. ágúst síðastliðinn. Niðurstöðurnar byggja á svörum 210 stjórnenda. 

Hér er hægt að nálgast greininguna.