Hvatning til úrsagna úr Þjóðkirkjunni jaðrar við einelti

Ögmundur Jónasson fv. ráðherra og fv. þingmaður Vinstri grænna.

„Nú loks kom ég því í verk. Ég var rétt kom­inn af ung­lings­aldri þegar ég sagði mig úr þjóðkirkj­unni. Ekki vegna þess að ég hefði á henni andúð. Ég vildi ein­fald­lega standa utan allra trú­ar­stofn­ana.“

Þetta skrifar Ögmundur Jónasson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, í vikulegum pistli sínum í Morgunblaðinu í dag, þar sem hann gerir grein fyrir þeirri ákvörðun sinni að ganga aftur í Þjóðkirkjuna nú í vikunni.

Til að skýra hug­hvarf sitt, gerir hann grein fyr­ir nokkr­um þráðum sem síðan koma sam­an í þess­ari ákvörðun.

„Eins mót­sagna­kennt og það kann að hljóma sem skýr­ing á því að ganga í kirkj­una, þá hef ég varað við því að trú­væða þjóðlífið um of. Á heimsvísu hef­ur það ein­mitt verið að ger­ast, ekki til að sam­eina fólk held­ur til að sundra því! Á ráðstefnu um mann­rétt­inda­mál hlustaði ég á bresk­an mann segja frá því að í æsku hans hefðu menn iðulega vikið að pakistönsk­um upp­runa hans ef menn vildu segja eitt­hvað ljótt og niðrandi um hann. Í seinni tíð fengi hann hins veg­ar að heyra ónot um að hann væri íslam­isti og ætti ekk­ert gott skilið. „Mikið rétt,“ sagði ræðumaður, „fjöl­skylda mín telst vera múhameðstrú­ar en aldrei hafa trú­ar­brögð verið ráðandi þátt­ur í okk­ar lífi að öðru leyti en því að við höf­um fylgt ýms­um al­menn­um siðum og venj­um en meira hef­ur það ekki verið. Það er fyrst nú í seinni tíð að við finn­um fyr­ir því að reynt er að draga okk­ur í dilk eft­ir meint­um trú­ar­skoðunum, við séum öðru­vísi og vara­söm fyr­ir vikið.“

Margt fagurt í flestum trúarbrögðum

Sam­kvæmt mín­um skiln­ingi geym­ir kjarni flestra þróaðra trú­ar­bragða svipuð gildi og lífssann­indi, og ef vilji er fyr­ir hendi gæt­um við auðveld­lega sam­ein­ast um þau hverju nafni sem þau nefn­ast. Þannig er margt fag­urt í flest­um trú­ar­brögðum en mann­eskj­unni hef­ur engu að síður tek­ist að af­skræma þau eins og margt annað. Það er of­stækið, nái það að skjóta rót­um, sem get­ur gert trú­ar­brögðin ill eins og dæm­in sanna.

Auðvitað á hver maður að geta iðkað þá trú eða stundað þá lífs­skoðun sem hann vill. Sjálf­ur hef ég hins veg­ar viljað hafa fyr­ir­komu­lag sem dreg­ur úr vægi trú­ar­stofn­ana í hinu ver­ald­lega lífi en styrk­ir jafn­framt hin hóf­sömu og vel­viljuðu öfl inn­an trú­ar­bragðanna. Og ekki er það til að styrkja hina hóf­sömu að gera þeim að eiga í stöðugu sam­keppn­is­stríði um sál­irn­ar við harðdræga upp­hróp­un­ar­söfnuði. Þor­geir Ljósvetn­ingagoði bauð ekki upp á fjöl­trú­ar­lausn í til­lög­um sín­um á Alþingi árið eitt þúsund þegar hann kom í veg fyr­ir blóðugt upp­gjör á milli krist­inna manna og heiðinna, en hann var for­ingi hinna síðar­nefndu. Hann vildi hafa okk­ur öll und­ir sama þaki. Við skul­um hafa ein lög og einn sið, ann­ars brjót­um við friðinn, var inn­takið í salómons­dómi hans. Sá dóm­ur var barn síns tíma nema að því leyti að í hon­um var þráður umb­urðarlynd­is, við skyld­um vera krist­in en hver maður átti að geta gert það sem hug­ur hans stæði til – að vísu í leyni. Nú eru bönn og leynd að baki. Þess vegna hef ég alltaf með góðri sam­visku sagst vera í söfnuði Þor­geirs Ljósvetn­ingagoða.

Á Íslandi hef­ur þetta verið hið al­menna viðhorf, fólk vill umb­urðarlyndi og þá einnig umb­urðarlynd­an sið svo við not­um orðfæri goðans. Í hinni marglofuðu þjóðar­at­kvæðagreiðslu um stjórn­ar­skrár­drög­in árið 2012 vildi meiri­hlut­inn halda þjóðkirkj­unni við lýði. Á Alþingi hef­ur þessi vilji verið hunsaður sem kunn­ugt er, nú síðast með laga­breyt­ingu um ára­mót­in, og þau sem líta á niður­stöður um­ræddr­ar þjóðar­at­kvæðagreiðslu sem heil­aga ritn­ingu virðast sam­mála um að gleyma þess­um þætti í þjóðar­vilj­an­um.

Ástæður þess að flest­ir lands­menn hafa verið í þjóðkirkj­unni og hafa viljað halda í það fyr­ir­komu­lag eru af ýms­um toga, sum­ir af trú­ar­leg­um ástæðum, aðrir fé­lags­leg­um – þarna erum við flest und­ir sama þaki! Kirkj­an gift­ir og gref­ur og flest nýt­um við þjón­ustu henn­ar óháð trú­ar­hita. En þar nálg­umst við ástæðu þess að ég ákvað í vik­unni að láta verða af því að ganga í þjóðkirkj­una.

Þá hafði ég verið viðstadd­ur fimm jarðarfar­ir á litlu fleiri dög­um. Kirkj­urn­ar voru hlýj­ar og nota­leg­ar, hljóm­ur org­el­anna góður, kór­arn­ir af­bragð og fög­ur bless­un­ar­orð. Ekki er þetta þó ein­hlítt. Víða hef­ur meira að segja reynst erfitt að halda kirkju­hús­næðinu í sæmi­legu ásig­komu­lagi eft­ir að fólk tók að segja sig úr kirkj­unni fyr­ir nær stöðuga hvatn­ingu í ýms­um fjöl­miðlum. Hef­ur í mín­um huga þar jaðrað við einelti. Svo er hitt að sókn­ar­gjöld­in, þau gjöld sem við greiðum til viðhalds kirkn­anna, hafa rýrnað að verðgildi eft­ir að ríkið tók að hlaup­ast frá laga­leg­um skuld­bind­ing­um sín­um hvað þau varðar. Sú saga teyg­ir sig til hruns­ins og hef­ur þetta aldrei verið leiðrétt.

„Ég vil ekki borga til kirkju,“ sagði góðvin­ur minn við mig á dög­un­um. „Það vildi ég ekki held­ur,“ svaraði ég. „En svo deyr mamma manns, þá vill maður að org­elið sé í lagi. Þetta er eins og að borga til verka­lýðsfé­lags­ins,“ bætti ég við, „maður er ekki alltaf sátt­ur, en fé­lagið þarf að vera þarna og þá er um að gera að styrkja það og styðja til góðra verka“. Og þegar allt kem­ur til alls, þá er mark­miðið með boðun kirkj­unn­ar að styðja hið góða innra með okk­ur. Varla er það til ills í viðsjár­verðum heimi.“