„Nú loks kom ég því í verk. Ég var rétt kominn af unglingsaldri þegar ég sagði mig úr þjóðkirkjunni. Ekki vegna þess að ég hefði á henni andúð. Ég vildi einfaldlega standa utan allra trúarstofnana.“
Þetta skrifar Ögmundur Jónasson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, í vikulegum pistli sínum í Morgunblaðinu í dag, þar sem hann gerir grein fyrir þeirri ákvörðun sinni að ganga aftur í Þjóðkirkjuna nú í vikunni.
Til að skýra hughvarf sitt, gerir hann grein fyrir nokkrum þráðum sem síðan koma saman í þessari ákvörðun.
„Eins mótsagnakennt og það kann að hljóma sem skýring á því að ganga í kirkjuna, þá hef ég varað við því að trúvæða þjóðlífið um of. Á heimsvísu hefur það einmitt verið að gerast, ekki til að sameina fólk heldur til að sundra því! Á ráðstefnu um mannréttindamál hlustaði ég á breskan mann segja frá því að í æsku hans hefðu menn iðulega vikið að pakistönskum uppruna hans ef menn vildu segja eitthvað ljótt og niðrandi um hann. Í seinni tíð fengi hann hins vegar að heyra ónot um að hann væri íslamisti og ætti ekkert gott skilið. „Mikið rétt,“ sagði ræðumaður, „fjölskylda mín telst vera múhameðstrúar en aldrei hafa trúarbrögð verið ráðandi þáttur í okkar lífi að öðru leyti en því að við höfum fylgt ýmsum almennum siðum og venjum en meira hefur það ekki verið. Það er fyrst nú í seinni tíð að við finnum fyrir því að reynt er að draga okkur í dilk eftir meintum trúarskoðunum, við séum öðruvísi og varasöm fyrir vikið.“
Margt fagurt í flestum trúarbrögðum
Samkvæmt mínum skilningi geymir kjarni flestra þróaðra trúarbragða svipuð gildi og lífssannindi, og ef vilji er fyrir hendi gætum við auðveldlega sameinast um þau hverju nafni sem þau nefnast. Þannig er margt fagurt í flestum trúarbrögðum en manneskjunni hefur engu að síður tekist að afskræma þau eins og margt annað. Það er ofstækið, nái það að skjóta rótum, sem getur gert trúarbrögðin ill eins og dæmin sanna.
Auðvitað á hver maður að geta iðkað þá trú eða stundað þá lífsskoðun sem hann vill. Sjálfur hef ég hins vegar viljað hafa fyrirkomulag sem dregur úr vægi trúarstofnana í hinu veraldlega lífi en styrkir jafnframt hin hófsömu og velviljuðu öfl innan trúarbragðanna. Og ekki er það til að styrkja hina hófsömu að gera þeim að eiga í stöðugu samkeppnisstríði um sálirnar við harðdræga upphrópunarsöfnuði. Þorgeir Ljósvetningagoði bauð ekki upp á fjöltrúarlausn í tillögum sínum á Alþingi árið eitt þúsund þegar hann kom í veg fyrir blóðugt uppgjör á milli kristinna manna og heiðinna, en hann var foringi hinna síðarnefndu. Hann vildi hafa okkur öll undir sama þaki. Við skulum hafa ein lög og einn sið, annars brjótum við friðinn, var inntakið í salómonsdómi hans. Sá dómur var barn síns tíma nema að því leyti að í honum var þráður umburðarlyndis, við skyldum vera kristin en hver maður átti að geta gert það sem hugur hans stæði til – að vísu í leyni. Nú eru bönn og leynd að baki. Þess vegna hef ég alltaf með góðri samvisku sagst vera í söfnuði Þorgeirs Ljósvetningagoða.
Á Íslandi hefur þetta verið hið almenna viðhorf, fólk vill umburðarlyndi og þá einnig umburðarlyndan sið svo við notum orðfæri goðans. Í hinni marglofuðu þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárdrögin árið 2012 vildi meirihlutinn halda þjóðkirkjunni við lýði. Á Alþingi hefur þessi vilji verið hunsaður sem kunnugt er, nú síðast með lagabreytingu um áramótin, og þau sem líta á niðurstöður umræddrar þjóðaratkvæðagreiðslu sem heilaga ritningu virðast sammála um að gleyma þessum þætti í þjóðarviljanum.
Ástæður þess að flestir landsmenn hafa verið í þjóðkirkjunni og hafa viljað halda í það fyrirkomulag eru af ýmsum toga, sumir af trúarlegum ástæðum, aðrir félagslegum – þarna erum við flest undir sama þaki! Kirkjan giftir og grefur og flest nýtum við þjónustu hennar óháð trúarhita. En þar nálgumst við ástæðu þess að ég ákvað í vikunni að láta verða af því að ganga í þjóðkirkjuna.
Þá hafði ég verið viðstaddur fimm jarðarfarir á litlu fleiri dögum. Kirkjurnar voru hlýjar og notalegar, hljómur orgelanna góður, kórarnir afbragð og fögur blessunarorð. Ekki er þetta þó einhlítt. Víða hefur meira að segja reynst erfitt að halda kirkjuhúsnæðinu í sæmilegu ásigkomulagi eftir að fólk tók að segja sig úr kirkjunni fyrir nær stöðuga hvatningu í ýmsum fjölmiðlum. Hefur í mínum huga þar jaðrað við einelti. Svo er hitt að sóknargjöldin, þau gjöld sem við greiðum til viðhalds kirknanna, hafa rýrnað að verðgildi eftir að ríkið tók að hlaupast frá lagalegum skuldbindingum sínum hvað þau varðar. Sú saga teygir sig til hrunsins og hefur þetta aldrei verið leiðrétt.
„Ég vil ekki borga til kirkju,“ sagði góðvinur minn við mig á dögunum. „Það vildi ég ekki heldur,“ svaraði ég. „En svo deyr mamma manns, þá vill maður að orgelið sé í lagi. Þetta er eins og að borga til verkalýðsfélagsins,“ bætti ég við, „maður er ekki alltaf sáttur, en félagið þarf að vera þarna og þá er um að gera að styrkja það og styðja til góðra verka“. Og þegar allt kemur til alls, þá er markmiðið með boðun kirkjunnar að styðja hið góða innra með okkur. Varla er það til ills í viðsjárverðum heimi.“