Hver tekur við af Jean-Claude Juncker?

Breytingar eru framundan í hjarta stjórnkerfis Evrópusambandsins (ESB), og lykilstaða forseta framkvæmdastjórnar ESB losnar í október, þegar Jean-Claude Juncker sem gegnir henni núna, mun þurfa að afhenda keflið einhverjum öðrum. 

Evrópuþingkosningarnar hafa tvístrað Evrópuþinginu og líkurnar á að ná samkomulagi um ýmis mál fara dvínandi. Þungavigtarríkin Frakkland og Þýskaland eru nú þegar farin í hár saman yfir hlutverki þess, sem felur m.a. í sér að koma með tillögur að lögum og veita pólitíska leiðsögn.

Hverjir koma því helst til greina í embætti forseta framkvæmdastjórnar ESB, m.v. þær upplýsingar sem nú liggja fyrir? Sumir líklegir eru nú þegar komnir fram, en aðrir hafa enn ekki verið nefndir til sögunnar. Breska ríkisútvarpið spáði í nokkra sem þykja líklegir.

Manfred Weber – áhrifamaður í mið-hægri blokk ESB (EPP). Hann er Þjóðverji og þykir með þeim líklegri. Angela Merkel, kanslari Þýskalands og Sebastian Kurz, f.v. kanslari Austurríkis og leiðtogi EPP frá árinu 2014, styðja hann. EPP er stærsta blokkin á Evrópuþinginu, en hefur veikst eftir kosningarnar og Weber þurfa að reyna að afla stuðnings annarra blokka til að hneppa embættið. Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, hefur þó ekki sýnt stuðning við hann, en hann á í erfiðleikum vegna framgangs Græningja í kosningunum og tregðu samherja hans við að styðja ýmsar aðgerðir í umhverfismálum. Weber hefur talað fyrir mikilvægi þess að efla öryggismálin og „verja evrópska lífshætti og grunngildi“. Hann hefur lofað að skipa embætti til að eiga í samvinnu við Afríku um að koma skikki á straum innflytjenda til Evrópu og sjá til þess að viðskiptasamningar framtíðarinnar líði ekki barnaþrælkun.

Margrethe Vestager – Frjálslyndir (ALDE). Hún er áhrifamaður úr dönsku stjórnmálalífi og hefur sl. fimm ár gegnt embætti yfirmanns samkeppnismála í ESB. Hún leiddi rannsóknir og málaferli gagnvart tæknirisum á borð við Google og Apple, sem endaði í háum sektargreiðslum þeim til handa. Þessi barátta hennar fyrir samkeppnismálum og neytendavernd varð til þess að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði við Juncker: „Skattakonan ykkar, hún virkilega hatar Bandaríkin“. Þó nafn hennar hafi komið upp og ALDE hafi náð árangri í kosningunum, þá er blokkin með sjö kandítata sem hafa verið nefndir til starfans, og nafn hennar er ekki efst á þeim lista. „Ég hef reynt að brjóta upp einokun og fákeppni. Það er einnig það sem kjósendur gerðu. Fákeppni valdsins hefur verið brotin upp“, og vísaði hún til hefðbundinna hægri og vinstri flokka í Evrópu, sem heldur betur voru rassskelltir í kosningunum.

Frans Timmermans – Sósíalistablokkin. Hefur fengið meðbyr eftir að hafa óvænt leitt hollenska mið-vinstri Verkamannaflokkinn til sigurs í Evrópuþingkosningunum þarlendis, vegna stuðnings við áframhaldandi Evrópusamvinnu. Hann er fyrsti varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, og aðstoðaði við að koma á banni við sogrörum úr plasti og semja við Tyrkland um að draga úr straumi flóttamanna til álfunnar. En hann er óvinsæll í Póllandi og Ungverjalandi vegna gagnrýni á stjórnvöld þar. „Fólk sem áður kaus Verkamannaflokkinn og aðra flokka kjósa nú þjóðernissinna, jafnvel þá sem eru yst á jaðrinum. Við getum kennt okkur sjálfum um“, er haft eftir honum. Nýjustu stefnumál hans eru 18% lágmarksskattur á fyrirtæki og lágmarkslaun í ESB.

Ska Keller – Græningjar. Eftir óvæntan árangur í Evrópuþingkosningunum, eru Græningjar nú fjórða stærsta blokkin á þinginu og umhverfismál eru orðin eitt af lykilstefnumálum ESB næstu fimm árin. Í heimalandi hennar, Þýskalandi, leiða Græningjar nú í skoðanakönnunum. Hún styður málefni innflytjenda ekki síður en umhverfismál og hefur krafist úrbóta í mannréttindamálum. Hún kveðst málsvari allra, en þó unga fólksins sérstaklega. Hún er með gráðu í íslömskum, tyrkneskum og gyðingafræðum og þykir snjöll á samfélagsmiðlunum. Líklegt þykir að hún muni eiga í erfiðleikum með að afla stuðnings í nægilega mörgum aðildarríkjum ESB. Hún vill tækla loftslagsmálin án þess að banna flug og hefur sagt: „Ef lestarferðir verða ódýrari og betri, þá verða styttri flug óþörf“.

Kristalina Georgieva – aðalframkvæmdastjóri Alþjóðabankans. Þessi búlgarski hagfræðingur hefur ekki enn verið nefnd til sögunnar, en hún þykir eiga möguleika sem áhrifamanneskja í Austur-Evrópu. Hún hefur unnið sér inn gott orð á meðal leiðtoga ríkja ESB fyrir að ná að skera niður útgjöld á fjárlögum sambandsins á árunum 2014-2016. Hún hefur stýrt fjárhag einhverra stærstu hjálpar- og þróunarsjóða heims og unnið með Bill Gates og Ban-Ki Moon, og styður jafnréttismál. Bakgrunnur hennar þykir vera hjá mið-hægri EPP og mögulegt væri að tefla henni fram gegn Weber sem málamiðlun. Hún hefur ekki átt sæti á Evrópuþinginu og er lítt þekkt á meðal kjósenda. „Amma og afi fengu litla skólagöngu, foreldrar mínir urðu gagnfræðingar. Ég varð fyrst í fjölskyldunni til að hljóta doktorsgráðu. Ég kem úr þorpi í Búlgaríu en varð framkvæmdastjóri Alþjóðabankans – svona líta tækifærin út“, er haft eftir henni á twitter.

Michel Barnier – BREXIT samningamaður ESB. Einnig hann hefur enn ekki verið nefndur til sögunnar, en hann þykir hafa sýnt stjórnkænsku þegar hann fékk 27 ESB ríki til að sammælast um afstöðu í BREXIT viðræðunum við Breta. Macron hefur sagt hann hafa sýnt mikilvæga eiginleika sem þurfi til að gegna æðstu embættum hjá ESB. Sumum þykir hann of þurrpumpulegur, og einnig hefur hann áður stutt miðstýringu, sterka leiðtoga og sjálfstæðar utanríkisstefnur, í anda Charles de Gaulle. „Nú sem aldrei fyrr, þurfum við Evrópumenn sameiginlegt átak í varnarmálum til varnar grunngildum Evrópu og alþjóðlegum lögum og reglu. Tími Evrópu gæti verið runninn upp, á grundvelli sterkari Evrópusamvinnu“.

Angela Merkel – kanslari Þýskalands. Hún er enn efst á lista valdamestu kvenna heims skv. Forbes, en hún mun stíga úr embætti árið 2021. Það hefur orðið tilefni vangaveltna um framhaldið. Juncker hefur sagt hana vera mjög hæfa í æðstu embætti ESB. Hann kallaði Merkel ekki aðeins virðulega, heldur „fullkomið og hrífandi listaverk“. Samkvæmt slúðrinu í Brussel er hún þar í uppáhaldi, þrátt fyrir að hafa sjálf ekki sýnt ESB embættum neinn áhuga. Hún hefur sagst styðja Weber, fulltrúa EPP.