Hver tók þá ákvörðun að Ísland óskaði eftir þessu?

„Þessi gjörningur vekur spurninguna: Hver tók þá ákvörðun að Ísland óskaði eftir þessu og í hvaða umboði gerði sá aðili það? og í framhaldi af því: Á hvaða vegferð er stjórnkerfi Íslands?“

Þessara spurninga spyr Haraldur Ólafsson veðurfræðingur og formaður Heimssýnar, aðspurður um frétt Viljans frá í gær um fyrirhugaðar breytingar á þjónustutilskipun ESB, sem gæti gefið sambandinu og ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) vald til þess að yfirfara lög og stjórnsýsluákvarðanir áður en þau taka gildi, til þess að kanna hvort þau samræmist Evrópurétti eða ákvæðum EES-samningsins.

Efnislega er hugmyndin svo glórulaus að hún hefði þótt óboðleg í framtíðarskáldsögu

Fréttin um áformin hefur vakið hörð viðbrögð. Ögmundur Jónasson fv. ráðherra og Frosti Sigurjónsson, fv. alþingismaður, velta fyrir sér framtíð EES-samningsins að óbreyttu, þar sem ESB sé sífellt að útvíkka hann í eigin þágu — einhliða.

„Getur verið að ókjörnir huldumenn sendi erindi til stofnana í útlöndum sem svo segja Alþingi fyrir verkum? Efnislega er hugmyndin svo glórulaus að hún hefði þótt óboðleg í framtíðarskáldsögu,“ segir Haraldur í samtali við Viljann.

Ögmundur Jónasson deilir frétt Viljans á heimasíðu sinni og segir:

„Nú vill Evrópusambandið “útvíkka” þjónustutilskipunina og fannst okkur mörgun hún of víð þegar henni var þröngvað í gegn fyrir fáeinum árum.“

Og hann bætir við: 

„En ég spyr, er ekki komið nóg frá Brussel og er kannski svoldið síðan nóg var komið af Brussel-valdinu; auðvaldinu frá Brussel? Því það er á forsendum þess, auðvaldsins, markaðshyggjunnar, sem stjórnað er frá Brussel.“