Hvernig ætla sjálfstæðismenn að bæta bændum tapið?

Kim Ratcliffe er ríkasti maður Bretlands og kaupir upp íslenskt jarðnæði í stórum stíl, einkum jarðir við laxveiðiár.

„Ég sé að framsóknarflokkarnir vilja almennt bregðast við jarðakaupum útlendinga. Katrín Jak­obs­dótt­ir, for­­sæt­is­ráð­herra, sagði í við­tali í kvöld­fréttum Rík­is­sjón­varps­ins í gær að breiður póli­­tísk­ur vilji væri til að tak­­marka jarða­kaup auð­manna hér á landi.

Sigurður Ingi vill ganga eins langt í lagasetningu um jarðakaup útlendinga og hægt er. Samfylkingin telur að við svo búið megi ekki standa. Hún er komin aftur í búvörusamningsgírinn.“

Þannig kemst Benedikt Jóhannesson, fv. formaður Viðreisnar og fjármálaráðherra, að orði á fésbókinni í tilefni umræðu um lagasetningu og hertar reglur og sölu á jarðnæði.

Hann segir að þá þurfi að svara þessum spurningum:

„Hvað vill Sjálfstæðisflokkurinn leyfa mönnum að eiga margar jarðir? og Hvernig ætla sjálfstæðismenn að bæta bændum sem vilja selja það tap sem minni eftirspurn leiðir af sér?“

Í pistli á vefsvæði sínu segir Benedikt að jarðakaup enska auðjöfursins Jim Ratcliffe veki umtal og netmiðlar logi vegna frétta um viðskiptin. Tvennt virðist ráðandi í umræðunni:

  1. Kaupandinn er útlendingur
  2. Hann hefur eignast mjög margar jarðir hér á landi

„Miklu fleiri sjónarmið koma þó fram. Bent er á að nú sé loksins kominn kaupandi að jörðum sem enginn Íslendingur hafi kært sig um. Bændur eigi erfitt með að lifa af búskap og fái nú loks nokkrar krónur upp úr krafsinu. Líklegt sé að stöndugur eigandi muni sinna ræktun, vernd og uppbyggingu betur en fátækur bóndi.

Benedikt Jóhannesson fv. fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar.

Aðrir telja kaupandann vafasaman karakter sem ekki sé treystandi. Íslendingar verði í framtíðinni leiguliðar á eigin landi, líklegt sé að hinn erlendi auðjöfur ætli sér að selja vatn af jörðum sínum til útlanda og hann hafi lokað á laxveiði í gjöfulum ám.

Bara ef lúsin íslensk er…

Það er oft stutt í þjóðardrambið sem Hannes Hafstein hæddi í ljóði: „Bara ef lúsin íslenzk er, er þér bitið sómi.“

Benedikt segir sjálfsagt að ræða hættuna sem geti fylgt misnotkun á eignarhaldi. Íslendingar séu enn brenndir eftir að íslenskir auðjöfrar eignuðust ráðandi hlut í ríkisbönkunum.

„Örfáum árum síðar var efnahagskerfi landsins rústir einar. Eftirlitsaðilar skelfdust hina voldugu eigendur og lýstu því jafnvel yfir opinberlega að allt væri í himnalagi. Eftir hrun hefur áherslan verið á efldar reglur og aukið eftirlit.

Hagsmunir almennings felast þó fyrst og fremst í því hvernig land er nýtt. Hvað viljum við? Hvaða aðgang á almenningur að hafa að landinu? Hver á auðlindir sem á jörðunum kunna að vera?

Setjum réttlátar reglur sem gilda um alla. Misnotkun íslenska kotbóndans og enska auðjöfursins er jafnmikill ósómi,“ bætir Benedikt við.