Hvernig ætlar dómsmálaráðherrann að bregðast við?

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.

Össur Skarphéðinsson, fv. ráðherra og formaður Samfylkingarinnar, segir að viðtal Morgunblaðsins við Harald Johannessen ríkislögreglustjóra, þar sem fullyrt er að spilling ríki innan lögreglunnar, virki galið en hann hafi engar forsendur til að efast um að ríkislögreglustjóri sé með réttu ráði.

„Viðtalið ber líka með sér að hin fordæmalausa og sögulega yfirlýsing um spillta lögreglu hafi verið sett fram að yfirlögðu ráði. Hvernig ætlar dómsmálaráðherrann að bregðast við? Hún getur ekki setið aðgerðalaus. Í því fælist að hún líti á ríkislögreglustjóra sem marklausan embættismann,“ segir hann.

„Einstaklingur sem dómsmálaráðherra tekur ekki mark á getur hins vegar ekki verið ríkislögreglustjóri. Hún verður því að bregðast við með einhverjum hætti. Nýr dómsmálaráðherra verður annaðhvort að láta rannsaka hvaða rök liggja að baki svo alvarlegri ásökun eða skipta um ríkislögreglustjóra með hraði,“ bætir hann við.

Dr. Össur Skarphéðinsson, fv. utanríkisráðherra.

Össur segir að hið eina sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra geti ekki er að láta einsog ekkert hafi gerst. Málið sé of alvarlegt til þess.

„Ef rannsókn leiðir í ljós að yfirlýsing ríkislögreglustjóra á við rök að styðjast er gott til að þess að vita að nýi dómsmálaráðherrann er vösk og líkleg til að láta hendur standa fram úr ermum við að hreinsa til í löggunni. Ef niðurstaðan er á annan veg verður staða ríkislögreglustjóra væntanlega auglýst á næstunni.“