Framsóknarmenn á þingi og í ríkisstjórn eru mjög ósáttir við þá ákvörðun meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis að fresta afgreiðslu samgönguáætlunar til hausts. Unnið hefur verið að samgönguáætlun, sem Sigurður Ingi Jóhannsson þáverandi innviðaráðherra, lagði fram, en nú er ljóst að Svandís Svavarsdóttir, nýr innviðaráðherra, mun leggja fram áætlunina að nýju í haust og er búist við mjög breyttum áherslum í henni og forgangsröðun, til að mynda með aukinni áherslu á samgöngur á höfuðborgarsvæðinu, þmt borgarlínu og minni áherslu á einkaframkvæmdir til samgöngubóta.
Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri grænna og formaður þingnefndarinnar, segir í færslu á fésbókinni, að nauðsynlegar forsendur þess að ljúka afgreiðslu samgönguáætlunar nú séu ekki til staðar og óhjákvæmilegt að fresta henni til hausts og nota næstu þrjá mánuði til að taka á ýmsum þáttum og ráðast í úrbætur svo hægt sé að afgreiða hana.
Hann birtir um leið bókun meirihluta nefndarinnar að baki þessari ákvörðun:
„Ljóst er orðið vegna stöðu 315. máls um tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028, að fresta beri afgreiðslu málsins til haustsins.
Mikilvægt er að tilteknar forsendur samgönguáætlunar, fjármögnun og samspil hennar við fjármálaáætlun liggi fyrir með skýrari hætti en nú, áður en hægt er að afgreiða hana.
Samspil framkvæmda og fjármögnunar þarf að skýra betur sérstaklega að því er varðar gjaldtöku og þær framkvæmdir sem fyrirhugað hefur verið að fjármagna með veggjöldum. Vinna verkefnastofu um gjaldtöku samvinnuverkefna hefur tekið lengri tíma en áætlað var í upphafi. Brýnt er að þeirri vinnu verði hraðað svo betur megi byggja á henni þau verkefni er fram koma í áætluninni. Að auki liggur fyrir að forsendur samgöngusáttmálans á höfuðborgarsvæðinu eru nú til endurskoðunar og sú vinna á lokametrunum. Æskilegt er að sáttmálanum séu gerð viðeigandi skil í samgönguáætlun í ljósi umfangsins og að endurskoðuninni sé lokið.
Meiri hluti fjárlaganefndar bendir á í nefndaráliti sínu um fjármálaáætlun að það hafi myndast misræmi milli gildandi samgönguáætlunar og fjárveitinga sem sé óviðunandi ástand. Meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar telur að skýra þurfi betur þetta misræmi áður en nefndin getur lokið umfjöllun sinni um samgönguáætlun.
Óvissa er um hvort að fjármögnun einnar framkvæmdar muni hafa áhrif á framkvæmd annarra samþykktra verkefna samgönguáætlunar. Ýmis verkefni áttu að vera hafin eða lokið samkvæmt gildandi samgönguáætlun. Skort hefur upp á að nefndin hafi fengið ítarleg og fullnægjandi gögn um stöðu stórra fjárfestingaverkefna sem varpa ljósi á framkvæmdir og fjármögnun. Það á ekki hvað síst við um framkvæmdir við Hornafjarðarfljót þar sem lagðar eru til heimildir í tillögu að samgönguáætlun til að vega upp á móti framkvæmdakostnaði sem er nú þegar fallinn til umfram upphaflegar forsendur. Þá standa yfir samningaviðræður við útboðsaðila um fjárhagslega umgjörð verkefnisins um Ölfusárbrú. Beðið er eftir niðurstöðum úr þeim viðræðum til að hægt sé að ákveða næstu skref.
Ljóst er að mikil viðhaldsþörf er orðin í vegakerfinu í heild sinni og aukið álag. Viðhaldsframkvæmdir virðast hafa farið umfram fjárheimildir á síðastliðnum tveimur árum m.a. vegna mikillar viðhaldsþarfar, verðlagshækkana og aukins fjármagnskostnaðar. Að þessu sögðu er mikilvægt að greina kostnaðaraukann með tilliti til framangreinds.
Fram hafa komið athugasemdir við það verklag sem er viðhaft og ljóst að skýra þarf stöðuna frekar sem er forsenda þess að hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir um næstu skref. Mikilvægt er að fyrir liggi fullnægjandi gögn um stöðu stórra fjárfestingaverkefna til að ná fram auknu samspili samgönguáætlunar og fjármálaáætlunar.
Í ljósi þess sem hér er rakið telur meiri hluti nefndarinnar ákjósanlegra fyrir málaflokkinn og uppbyggingu samgangna í landinu að nefndin fái tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun til umfjöllunar að nýju í haust.“