
Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, velti fyrir sér, í fróðleiksmola sem birtist í Morgunblaðinu í fyrrasumar, hvernig stæði á hinum miklu vinsældum Dr. Jordan Peterson.
Hannes Hólmsteinn segir:
„Ein ástæðan er, að hann nýtir sér út í hörgul nýja miðla, Youtube og Twitter. Hann er gagnorður og sléttmáll, og honum fipast hvergi, er harðskeyttir viðmælendur sækja að.

Í öðru lagi deila miklu fleiri með honum skoðunum en mæla fyrir þeim opinberlega. Langflestir menntamenn eru vinstri sinnaðir: Gáfaðir hægri menn gerast verkfræðingar, læknar eða atvinnurekendur, gáfaðir vinstri menn kennarar eða blaðamenn.
Þriðja ástæðan er, að vinstri sinnaðir menntamenn hafa nú miklu meiri völd í skólum og fjölmiðlum en áður, og þeir nota þau til að þagga niður í raunverulegri gagnrýni. Í huga þeirra eru vísindin ekki frjáls samkeppni hugmynda, heldur barátta, aðallega gegn kapítalismanum, en líka gegn „karlaveldinu“.

Eins og Peterson bendir á, eru til dæmis eðlilegar skýringar til á því, að tekjumunur mælist milli kynjanna. Fólk hefur tilhneigingu til að raða sér í ólík störf eftir framtíðaráætlunum sínum, og það er niðurstaðan úr þessari röðun, þessu vali kynjanna, sem mælist í kjarakönnunum.
En á Íslandi og annars staðar hefur risið upp jafnréttisiðnaður, sem kennir „karlaveldinu“ um þessa mælinganiðurstöðu. Jafnframt hefur skólakerfið verið lagað að áhugamálum róttækra kvenfrelsissinna, svo að tápmiklir piltar finna þar litla fótfestu. Nú er aðeins þriðjungur þeirra, sem brautskrást úr Háskóla Íslands, karlkyns.“