Kjarnorkuslysið í Chernobyl kjarnorkuverinu nálægt borginni Pripyat í Úkraínu er ýmsum enn í fersku minni, og aðrir þekkja það sem alvarlegasta slys sinnar tegundar í sögunni. Geysivinsælir þættir um slysið, aðdraganda þess og eftirmál voru nýlega gerðir og í sýningu hjá bandarísku sjónvarpstöðinni HBO við mikið lof og áhuga áhorfenda. En öllum að óvörum er slysstaðurinn nú að breytast í vinsælan áfangastað ferðamanna.
Áhyggjufull kona skrifaði breska blaðinu Independent og spurði hvort það væri öruggt að ferðast til Chernobyl, þar sem maðurinn hennar hafði í fljótfærni bókað ferð þangað fyrir þau, án þess að kanna málið til hlítar. Til að svara varð einstaklingur sem ekki vildi láta nafns síns getið.
Geislamengaður ferðamannastaður
„Þann 26. apríl 1986, eftir röð mannlegra mistaka í bland við hönnunargalla, bráðnaði kjarnaofn nr. 4 í Chernobyl kjarnorkuverinu í norðanverðri Úkraínu. Geislamengun þakti umhverfi slysstaðarins og geislavirkt ský barst með vindi yfir til Evrópu dagana á eftir.
Þrjátíu og þremur árum síðar hefur slysstaður versta kjarnorkuslyss sögunnar orðið að vinsælum ferðamannastað, þangað sem hundruð manna ferðast daglega frá Kænugarði, höfuðborg Úkraínu. Byggingin sem hýsti kjarnaofn nr. 4 er þó afgirt og steypt hefur verið yfir hana.
Mín reynsla er sú að ferðirnar eru skipulagðar af fagmennsku, með áherslu á öryggi. Við fyrsta hliðið þarf að sýna vegabréf og hver og einn fær mæli til að mæla fyrir hve mikilli geislun hann verður. Geislun er mæld með líkamsskönnun nokkrum sinnum, til að kanna hvort einhver hafi orðið fyrir óvenju mikilli geislun.
„Disneylands-væðing“ á hörmungarstað
Láti maður það vera að vera fífldjarfur, og hlýðir öllum leiðbeiningum og fyrirmælum, þá er engin sérstök hætta á mikilli geislun. Eins og fyrir flesta í mínum ferðahópi, þá mældist geislun á mér svipuð og sú geislun sem ég yrði fyrir í um tveggja tíma flugferð.
En öryggi er ábótavant í draugabæjunum þarna á svæðinu. Heilbrigðisstaðlar sem við eigum að venjast virðast ekki gilda um ferðamennsku í Úkraínu. Verið undirbúin fyrir mikið af glerbrotum og hættu á að hrasa eða hrapa. Langerma- og síðskálma fatnaður og lokaðir skór eru nauðsyn.
Sumir hafa gagnrýnt „Disneylands-væðingu“ þessa staðar þar sem ólýsanlegur sorgarviðburður átti sér stað. En ég upplifði ferðina sem upplýsandi fremur en sem skemmtiferð.“