Á hvítasunnudag tóku postularnir á móti heilögum anda. Þeir töluðu tungum — það er mæltu þannig að hver og einn nærstaddur skildi þá líkt og þeir töluðu á hans móðurmáli, en þar voru menn af mörgum þjóðernum. 3000 manns létust skírast til kristni þann daginn. Þessi þrjú þúsund voru fyrsti kristni söfnuðurinn.
— Sjá Postulasöguna 1:1—1:26.

Hvítasunnan er auk páska og jóla ein af sameiginlegum höfuðhátíðum kristinnar kirkju. Hátíðin markaði upphaflega lok páskatímans sem stóð í 50 daga, en varð síðar að sjálfstæðum minningardegi um það sem kallað er úthelling heilags anda.

Íslendingar höfðu margvíslega hjátrú er varðaði hvítasunnu. Þannig trúðu menn því að fálkinn dræpi ekki rjúpu á hvítasunnu. Og þá var því og trúað að það væri ekki gott að leggja sig um miðjan hvítasunnudag því þá yrði maður óttalega slappur og þreyttur alveg fram á næsta hvítasunnudag, að því er rifjað upp á Biblíuvefnum í dag.

Í fróðlegum pistli eftir dr. Hjalta Hugason, prófessor í guðfræði við Háskóla Íslands, á Vísindavefnum, er bent á að heilagur andi er ein af þremur persónum hins þríeina Guðs sem kristnir menn trúa á. Hinar persónurnar tvær eru Guð faðir og Jesús Kristur. Hlutverk föðurins felst í sköpuninni, en hlutverk sonarins í endurlausninni undan veldi syndarinnar. Hlutverk heilags anda er aftur á móti að upplýsa sérhvern mann og endurnýja gjörvalla sköpun Guðs. Hann er því sagður vera sá umskapandi kraftur sem kemur öllu góðu til leiðar í mannlífi og náttúru. Meðal annars af þessum ástæðum er litið á hvítasunnudaginn sem stofndag kirkjunnar.

„Í 14. kapítula Jóhannesarguðspjalls segir frá því að Kristur sem þá var upprisinn, hafi heitið lærisveinum sínum að þeim mundi gefast „annar hjálpari“ sem öfugt við hann sjálfan mundi vera hjá þeim að eilífu. Þessi „hjálpari“ var „andi sannleikans“ eða heilagur andi. Frá uppfyllingu þessa fyrirheitis er síðan skýrt í 2. kapítula Postulasögunnar, en þar segir að lærisveinahópurinn hafi verið saman kominn og hafi þá heyrst gnýr af himni eins og óveður væri í nánd, eldtungur hafi birst og sest á þá og þeir tekið að tala framandi tungumál sem þeir ekki kunnu. Töldu þeir sem vitni urðu að atburðinum að lærisveinarnir væru drukknir. Tákn andans var hinn hreinsandi eldur og tungutalið, en sumar kirkjudeildir, þar á meðal Hvítasunnumenn, leggja mikið upp úr því. Aðrar kirkjudeildir telja að andinn starfi með leyndari hætti í innsta hugskoti manns og komi þar trú og góðum verkum til leiðar.

Eins og páskarnir tengist hvítasunnan fornri ísraelskri og síðar gyðinglegri hátíð. Hátíðin var upphaflega uppskeruhátíð sen haldin var á fimmtugasta degi eftir páska, en var síðar haldin til minningar um sáttmála Drottins við Ísraelsþjóðina á fjallinu Sínaí þegar boðorðin 10 voru sett (2. Mósesbók, 19. kapítuli og áfram). Hátíðin vitnar því um samhengi í trúarbragðasögunni þrátt fyrir að inntak hennar hafi breyst mikið í tímans rás.

Upphaflegt heiti hátíðarinnar, pentekosté heméra eða fimmtugasti dagurinn, var tekið í arf frá grískumælandi gyðingum. Af því nafni er heiti hvítasunnunnar í ýmsum erlendum málum dregið, til dæmis pentecost á ensku og pinse á dönsku. Íslenska heitið hvítasunna á sér einnig hliðstæðu í ýmsum málum, til dæmis Whitsunday á ensku.

Til forna var heitið hvítadagur venjulega notað. Var nafnið dregið af því að algengt var að skíra fólk á aðfaranótt hvítasunnu, en hún var haldin hátíðleg eins og ýmsar aðrar aðfaranætur stórhátíða. Jólanóttin er dæmi um slíka aðfaranótt sem enn er haldin hátíðleg. Eftir skírnina voru þeir sem skírst höfðu færðir í hvít klæði eða hvítavoðir sem skírnarkjólar nútímans eiga rætur að rekja til. Hinir hvítklæddu skírnþegar settu því mikinn svip á hátíðarhald dagsins og raunar alls páskatímans.

Nú á dögum hefur hvítasunnan misst mikið af heilagleika sínum í huga fólks og er orðin að langri helgi og fyrstu ferðahelgi ársins ef vel viðrar. Sums staðar er hún þó enn notuð til ferminga. Ástæður þess að hvítasunnan hefur gleymst á þennan hátt eru ugglaust þær að tilefni hennar er huglægara og afstæðara en tilefni jóla og páska. Þá hafa færri trúarlegir og félagslegir siðir og venjur tengst hvítasunnunni en hinum hátíðunum tveimur, en slíkar venjur festa hátíðir gjarnan í sessi langt umfram það sem hið trúfræðilega inntak þeirra megnar að gera,“ segir ennfremur í pistlinum.