Hvers vegna spáðu faraldsfræðingarnir svona vitlaust?

Danski hagfræðingurinn Lars Christensen.

Hvers vegna hafa faraldsfræðingar haft svo rækilega rangt fyrir sér þegar kemur að útbreiðslu og afleiðingum kórónuveirunnar covid-19?

Þessari spurningu veltir danski hagfræðingurinn Lars Christensen upp á vef sínum, en hann varð landsþekktur hér á árunum fyrir hrun sem aðalhagfræðingur Danske Bank og var sakaður um að tala íslenskt fjármálakerfi niður.

Christensen segir að sé litið til fyrstu spádóma faraldsfræðinga um veiruna sjáist vel hversu mjög þeir hafi ofmetið hættuna. Þótt sorglega margir hafi látist, sé dánartalan samt miklu, miklu lægri en óttast hafi verið í fyrstu.

Sjálfir skýri faraldsfræðingarnir og sóttvarnayfirvöld þetta með því að aðgerðir þeirra sjálfra hafi haft þarna mest áhrif. Að útgöngubann og margskonar takmarkanir hafi skilað tilskildum árangri og dregið úr því sem ella hefði orðið.

Þetta segir hagfræðingurinn að sé kolröng aðferðafræði. Taka hefði átt með í reikninginn hverjar afleiðingar slíkra aðgerða yrðu.

Og hann bætir því við að þetta sé alls ekki í fyrsta sinn sem þetta gerist. Faraldsfræðingar hafi oft áður komið með dómsdagsspár um aðsteðjandi pestir sem ekki rættust. Það hafi gerst í meginatriðum líka í HIV/Aids, Ebóla, svínaflensunni og SARS.

Hann segir nauðsynlegt að taka mannlega hegðun og tækniframfarir inn í myndina þegar slíkar spár séu settar fram. Á þetta hafi hagfræðingar reglulega bent án þess að á þá væri hlustað. Fólk vilji almennt ekki veikjast og þegar farsóttir gangi yfir, fari það almennt varlega og breyti hegðun sinni til að koma í veg fyrir smit.

Að sama skapi hafi heilbrigðisstarfsfólk smám saman náð tökum á meðhöndlun þeirra sem veikjast af veirunni og dregið þannig verulega úr dauðsföllum. Þótt lyf hafi ekki beinlínis fundist sem lækni þá sem sýkjast, séu mörg gagnleg lyf í boði sem dragi úr verstu veikindunum og lini þjáningar. Auk þess hafi gengið vel að verja þá sem eru í viðkvæmustu hópunum.

Þetta sé í reynd sambærilegt og mótrök hagfræðinga gegn öðrum heimsendaspámönnum í gegnum árin, fólki á borð við Thomas Malthus, Paul Ehrlich og Gretu Thunberg. Heimurinn sé ekki að farast, þar sem mannkynið hafi oft sýnt mikla aðlögunarhæfni og útsjónarsemi þegar þrengir að.

Í pistli sínum segir Lars Christensen ennfremur að faraldsfræðispár nútímans séu ekki ólíkar veðurspám, en þær ættu fremur að líkjast hagspám. Ekki sé hægt að breyta veðrinu með því að taka sér regnhlíf í hönd, en takmarka megi útbreiðslu farsótta með félagsforðun, almennu hreinlæti og fjarlægðatakmörkunum.

Faraldsfræðingar hafi samt ekki beina hagsmuni af því að hafa á réttu að standa. Þeir séu flestir opinberir starfsmenn sem vinni fyrir sóttvarnayfirvöld eða vísindastofnanir á vegum hins opinbera. Þeir fái ekki borgað fyrir að hafa endilega á réttu að standa, þeirra verkefni sé að rannsaka og greina aðsteðjandi vanda.

Slíkur faraldsfræðingur njóti þess ekki að setja fram varfærna eða bjartsýna spá um ógnina sem framundan er. Hann geti á hinn bóginn fengið miklu hærri fjárveitingar og/eða styrki með því að hræða líftóruna úr fólki með dómsdagsspám.

Þá sé þess og að geta, að samkeppni skipti hér einnig máli. Margir aðilar setji fram hagspár og smám saman lærist hverjum eigi að taka mest mark á. Hægt sé að bera saman ólíkar spár og draga af þeim lærdóm. Þegar komi að faraldsfræði og smitsjúkdómum sé samkeppnin engin.