„Ég set spurningarmerki við það hver tilgangurinn sé með svona afgerandi yfirlýsingum, ég hélt að tilgangurinn væri að semja en ekki að vera með alhæfingar í fjölmiðlum,“ segir Eva Jósteinsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Center Hotels, en hún birti facebook-færslu í gær sem vakið hefur athygli.
Hana má lesa í heild sinni hér að neðan:
„Brotalamir hjá einstökum aðilum, sem eru auðvitað alveg ólíðandi, verða ekki lagaðar með kjarasamningum,“ segir Eva og á þá við fréttir af stökum aðilum í ferðaþjónustu þar sem kjör og framkoma gagnvart starfsmönnum virðist ekki vera til fyrirmyndar.
Hún telur sig geta fullyrt að hótelabransinn sé ekki svona yfir línuna. „Eins og gengur og gerist er fullt af ánægðu starfsfólki í þessum geira en svo eru auðvitað einhverjir óánægðir líka. Ferðaþjónustan á Íslandi er ung atvinnugrein sem hefur vaxið hratt með einhverjum vaxtarverkjum, eins og gengur, en hefur líka átt sinn þátt í að rífa efnahagslífið upp.“
Hún segir að markmið kjarasamninganna hljóti að vera að bæta kjör fólks. „Það er alveg ljóst að það er langt á milli aðila, en það ætti líka að þurfa að vera alveg ljóst að báðir þurfa að gefa eftir,“ og bætir við að ekki megi gleyma þætti stjórnvalda.
„Ég vil hvetja fólk til að tala saman, það á eftir að skila miklu meiru en upphrópanir í fjölmiðlum, almennt verður ágreiningur ekki leystur á þennan hátt.“