Hvetur til samvinnu ólíkra flokka um lausn málsins

Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lagði áherslu á það í skýrslu sinni til þingsins um dóm Mannréttindadómstóls Evrópu um landsréttarmálið á Alþingi í dag að dómur MDE skuli tekinn alvarlega.

Verið sé að skoða málið með innlendum sérfræðingum og ekki sé útilokað að kallaðir verði til erlendir sérfræðingar. Nú sé verið að vinna málið eins hratt og mögulegt sé, en að vanda þurfi til verka. Málið varði enda allar þrjár stoðir ríkisvaldsins.

Forsætisráðherra lagði í máli sínu áherslu á að minnihlutaálit MDE yrði tekið til greina í því ferli að skoða allar hliðar málsins. Afgreiðslu Alþingis á málinu verði að skoða ekki síður en framkvæmd framkvæmdavaldsins.

Dómsmálaráðherra hafi axlað pólitíska ábyrgð með afsögn sinni í sl. viku. Ekki sé útilokað að áfrýja dómi MDE og Alþingi muni jafnvel þurfa að skoða skipun fjögurra nýrra dómara í Landsrétt, eins og Dómstólasýslan hefur óskað eftir.

Forsætisráðherra hvatti til samvinnu flokka um lausn málsins, í þágu almennings, í stað þess að stökkva í pólitískar skotgrafir vegna þess.