Hví segja vinstri menn það ekki bara hreint út að þeir vilji banna bíla?

„Hví segja vinstri menn það ekki bara hreint út að þeir vilji banna bíla?“

Að þessu spyr Sigríður Á. Andersen þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fv. dómsmálaráðherra í pistli á heimasíðu sinni, þar sem hún bendir á að eftir margra mánaða tafir vegna skorts á kynningu fyrir íbúum í upphafi hafi borgaryfirvöld loks veitt Vegagerðinni framkvæmdaleyfi nýverið til að bæta gatnamót Bústaðarvegar og Kringlumýrarbrautar.

„Um er að ræða gerð nýrrar fráreinar og breikkun rampa á Kringlumýrarbraut ásamt breytingu á akstursleið inn á rampann frá Bústaðavegi og uppsetningu nýrra umferðarljósa. Allt er þetta hefðbundið viðhald og bætur á gatnakerfi okkar Reykvíkinga sem eykur öryggi og dregur úr töfum og þar með mengun. En leyfið var ekki veitt án ramakveins. Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata í skipulags- og samgönguráði fagna vissulega betri hljóðvist sem þessar framkvæmdir hafa í för með sér en bóka jafnframt:

„Hins vegar er ljóst á tímum loftslagsbreytinga að ekki er í boði að halda áfram að setja meira fjármagna í framkvæmdir sem skapa aukið rými fyrir bílaumferð þar sem þær framkvæmdir munu bæði skapa aukna bílaumferð og auka losun á CO2 frá samgöngum. Innan fáeinna ára verða umferðartafirnar á Bústaðavegi orðnar jafn langar og þær voru fyrir framkvæmdina og því er ekki um langtímalausn að ræða.“

Sigríður segir að þetta viðhorf minni svolítið á innkaupastjóra í verslun sem telji það ekki ómaksins vert að panta inn vinsælar vörur því þær hverfi svo skjótt úr hillunum.

Sigríður Á. Andersen fv. dómsmálaráðherra. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.