„Hvílíkt sjónvarp; ég man varla eftir annarri eins rassskellingu“

Frá umræðum í Silfrinu í dag. Skjáskot af vef Ríkisútvarpsins.

„Ég kveikti á Silfrinu og hugsaði: Æ, nei, ekki braggamálið. En hvílíkt sjónvarp; ég man varla eftir annarri eins rassskellingu. Maður fann til með Dóru og Heiðu, en hvers vegna í veröldinni eru þær líka að reyna að verja meðferð meirihlutans á málinu?

Gunnar Smári Egilsson, forsprakki Sósíalistaflokksins. / Ljósmynd: Útvarp Saga

Og jafnvel halda því fram að minnihlutinn sé að ræða þessi mál án tilefnis! Þessi meirihluti í borginni er fastur í einhverjum hliðarveruleika, jafnvel umfram annað stjórnmálafólk. Þeir píratar sem horfðu á þáttinn hljóta að boða til fundar í sínum flokki til að segja pírata frá meirihlutanum.“

Þetta segir Gunnar Smári Egilsson, forsprakki Sósíalistaflokksins og fjölmiðlamaður, á fésbókinni, en fjórir borgarfulltrúar tókust á í Silfrinu í Sjónvarpinu í dag um hið margnefnda braggamál.

Þar hélt Heiða Björk Hilmisdóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar, því fram að skýrsla Innri endurskoðunar hefði leitt í ljós að ekkert misferli hafi átt sér stað í tengslum við framkvæmdirnar. „Þetta er sérstök framkvæmd. Þetta er fráviksframkvæmd,“ sagði Heiða.

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, sagði braggamálinu langt í frá vera lokið.  „Þessi skýrsla er góð eins og hún er. Það er mörgu ósvarað þarna. Ég talaði alltaf um að það ætti að vera óháður aðili sem færi í þessa rannsókn. Það er augljóst mál að það er þörf á því.“

Ítrekaðar blekkingar

„Borgarstjórn var blekkt árið 2017 varðandi kostnað við braggann. Borgarstjórnar var blekkt núna í ágúst 2018 varðandi það hvað vantar mikið fé þarna inn. Því eftir stendur líka, sem er klárt og skýrt brot á sveitarstjórnarlögum, að það á eftir að fá heimildir fyrir 73 milljónum sem þegar hafa verið greiddar út. Þannig að það stendur ekki steinn yfir steini í þessu verkefni. Þarna erum við að tala um, að mínu mati, refsiverð brot. Það verður að fleyta þessari skýrslu áfram,“ sagði Vigdís.

Frá undirritun um uppbyggingu og viðgerðir á Bragganum á sínum tíma.

Dóra Björt Guðjónsdóttir, forseti borgarstjórnar og oddviti Pírata, sagði vandann liggja í minnihlutanum sem væri viljandi að afvegaleiða umræðuna, til dæmis með yfirlýsingum um lögbrot.

„Innri endurskoðun fór í þetta verkefni með misferlisgleraugu að vopni til þess einmitt að skoða hvort um misferli eða refsivert athæfi hafi verið að ræða,“ sagði hún og fullyrt að engar sannanir væru um  refsivert athæfi. Af þeim sökum sé tillaga um að vísa málinu til saksóknara undarleg og til merkis um að minnihlutinn vilji tefja umræðuna með popúlisma og rangfærslum.

„Það er rökvilla að borgarstjóri, sem er með tvo hatta – hann er bæði framkvæmdastjóri borgarinnar og pólitískur oddviti – að hann ætli að taka á málinu það bara gengur ekki upp. Þess vegna gátum við ekki tekið þátt í því,“ sagði Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, í þættinum þegar hann var spurður hvers vegna minnihlutinn vilji ekki eiga fulltrúa í rýnihóp borgarráðs um viðbrögð við skýrslunni.

Fengi kvíðaverki ef fulltrúarnir í Silfrinu tækju við

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, horfði líka á Silfrið og segir á fésbók, að það hafi beinlínis verið kvalarfullt að hlusta á fulltrúa meirihlutans í borginni.

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

„Þær létu í veðri vaka að þetta braggamál væri eins og hver önnur framkvæmd sem hefur farið fram úr upphaflegri fjárhagsáætlun og að borgarstjóri bæri ekki ábyrgð því að hann hafi ekkert vitað um málið.

Innri endurskoðun hafi farið yfir þetta allt og skilað skýrslu og nú ættu allir að horfa fram á við og hætta þessu fjasi og leiðindum.

Borgarstjóri ber auðvitað ábyrgð á klúðrinu sem maðurinn í brúnni og hann veit það þótt enginn hafi sagt honum að verið væri að endurgera braggann þar sem menn gengu um sjálfala með skattfé borgarbúa. Ég held því ekki fram að borgarstjóri verði að segja af sér til að axla þá ábyrgð. Ég fengi mikla kvíðaverki ef fulltrúarnir í Silfrinu tækju við,“ segir Brynjar.