Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, kveðst engan áhuga hafa á því að gera Sjálfstæðisflokkinn að andstæðingi sínum í deilum um orkupakka þrjú. Hann segir að Samfylkingin og Viðreisn geti séð um það hlutverk.
„Andstæðingar gera stundum sitt gagn en í þessu máli vil ég miklu fremur bandamenn en andstæðinga. Málið snýst enda um grundvallarhagsmuni og fullveldi þjóðarinnar,“ segir hann í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag og á heimasíðu formannsins.
Sigmundur Davíð segir að nú þurfi stuðning allra sem eru reiðubúnir til að verja fullveldi landsins, sama hvort þeir gera það af sannfæringu eða vegna þess að einhverjir aðrir eru til í þann slag.
Hann svarar í grein sinni gagnrýni sem Björn Bjarnason, fv. ráðherra, hefur sett fram um að undirbúningur innleiðingar orkupakkans hafi hafist í forsætisráðherratíð Sigmundar Davíðs og þá hafi hann hvorki hreyft legg né lið.
Tilraunir til að færa erlendum stofnunum valdheimildir
Sigmundur Davíð segir að Björn „virðist helst telja það málinu til framdráttar að ríkisstjórn mín hafi ekki kæft áform ESB um þriðja orkupakkann í fæðingu.“
„Nú kann vel að vera að ég og aðrir stjórnarþingmenn fyrri ára hefðum átt að gera enn meira af því en raun var að beita okkur gegn hugmyndum sem upp hafa komið innan Evrópusambandsins um aukna ásælni á ýmsum sviðum. Ég verð þó að viðurkenna að vangaveltur í Brussel um þriðja orkupakkann komu ekki mikið inn á radar ráðuneytisins í minni tíð. Önnur mál voru þar ofar á baugi og ekkert þeirra snerist um undanlátssemi við Evrópusambandið, öðru nær. Að minnsta kosti er ljóst að við innleiddum ekki þriðja orkupakkann eða aðrar tilraunir ESB til að auka vald sitt yfir stjórn landsins,“ segir Sigmundur Davíð.
Hann segir ljóst að við Íslendingar getum ekki leyft okkur að „fallast á tilraunir til að færa erlendum stofnunum valdheimildir á Íslandi og leggja grundvallarhagsmuni þjóðarinnar í hendur ókjörinna fulltrúa erlendra ríkja. Prinsippið eitt og sér nægir til að hafna slíkum tilburðum. Til viðbótar hefur þeim praktísku hættum sem af málinu stafa þegar verið lýst ágætlega af innlendum og erlendum sérfræðingum,“ segir Sigmundur Davíð ennfremur í grein sinni.