Samkomubann ríkir nú víða í heiminum til að hemja útbreiðslu kórónuveirunnar. Ljóst er að veiran skæða hefur ekki eingöngu haft áhrif á heilsufar heldur hefur hún nú þegar haft afdrifarík áhrif á bæði mannlíf og efnafjárhag um allan heim vegna viðbragðsáætlana yfirvalda. Skólum var lokað í Danmörku föstudaginn 13. mars á meðan Svíar lokuðu einungis menntaskólum og háskólum.
Margir hafa gagnrýnt Svía fyrir ábyrgðarleysi en þar hafa yfirvöld kosið að halda viðbragðsstöðunni áfram. Umræðan í Svíþjóð er klofin, margir vilja halda börnunum frá skólanum á meðan að aðrir telja það óþarft. Alls hafa 20 manns látist af völdum veirunnar í Svíþjóð en staðfest smit voru í lok gærdagsins um 1700 talsins.
Í viðtali við sænska fréttamiðilinn Folkbladet hefur læknaprófessorinn Johnny Ludvigsson, á sjúkrahúsinu í Linköping, áhyggjur af því sem hann kallar „hysteríu“ eða móðursýki í samfélaginu vegna vírussins.
„Hysterían í kringum kórónaveiruna er bæði úr tengslum við raunveruleikann og hættuleg. Þetta hefur ekki aðeins áhrif á efnafjárhaginn og samfélagið í heild heldur geta afleiðingarnar einnig dregið fólk til dauða og jafnvel valdið fleiri dauðsföllum en veiran sjálf þegar í heildina er litið, segir Ludvigsson.
Máli sínu til stuðnings bendir hann á að heilbrigðiskerfið hefur nú þegar þurft að aðlagast hugsanlegum faraldri. Hluti af hefðbundinni starfsemi hefur verið frestað um ókominn tíma sem raskar bataferli fjölda sjúklinga.
„Almenningur þorir varla að koma nálægt sjúkrahúsum þrátt fyrir að vera nálægt því að fá hjartaáfall. Ef tugir þúsunda manna, jafnvel hundruðir þúsunda, eigi á hættu á að verða atvinnulausir á stuttum tíma, eða fyrirtæki fara á hausinn, gætum við átt von á alvarlegri fjárhagskreppu sem mun hafa mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér,“ segir hann.
Hræðslan farið úr böndunum
Ludvigsson þykir það mesta furða að hræðslan við veiruna hafi farið úr böndum, þar sem sýktir einstaklingar séu í mörgum tilvikum einkennalausir.
„Flestir sem verða smitaðir verða ekki mikið veikir. Börn og ungt fólk verða varla veik, það er sjaldgæft að heilbrigðir einstaklingar undir 50-60 ára hafi látist af völdum veirunnar í heiminum. Í flestum tilvikum hefur fólk verið með undirliggjandi sjúkdóma og verið veikt fyrir.“
Margir telja að samkomubann sé öflugt skref í að koma í veg fyrir útbreiðslu á vírusnum skæða en Ludvigsson er á öðru máli.
„Það á að koma í veg fyrir að eldri borgarar smitist af veirunni. Mikilvægt að þessi hópur haldi sér í einangrun. En það er ekki hægt að setja heila þjóð í einangrun í heilt ár og bíða eftir að það komi bóluefni á markaðinn. Veiran þarf að breiðast út hjá yngri kynslóðinni og þegar um 60% af þjóðinni er búin að mynda hjarðónæmi þá er hún á undanhaldi yfirleitt, segir hann.
Þá telur læknirinn það mikilvægt að almenningur haldi áfram að lifa venjulegu lífi og að ekki sé skynsamlegt að loka skólum.
„Mér finnst að það ætti frekar að hvetja ungt fólk til að vera úti við, skella sér á skíði og skemmta sér eða fara í verslunarleiðangur. Ef samfélagið staðnar eigum við í hættu á alvarlegri kreppu, svipaðri sem átti sér stað á fjórða áratug síðustu aldar. Aldraðir og fólk með skert ónæmiskerfi á að halda sig heima, en aðrir eiga að taka þátt í lífinu eins og venjulega“, segir Johnny Ludvigsson prófessor.