Í dag erum við öll Vestfirðingar

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

„Snjóflóðin á Flateyri og í Súgandafirði í nótt eru miklar hamfarir. Það lítur út fyrir að mikið eignatjón hafi orðið en blessunarlega ekkert manntjón. Ung stúlka grófst undir flóðinu á Flateyri en var bjargað,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Hún hyggst sækja hamfarasvæðin heim um leið og veður leyfir, en hefur eytt morgninum í fundi og símtöl vegna snjóflóðanna.

„Það var gott að varðskipið Þór hafði verið sent vestur vegna slæmrar veðurspár og er núna á leið frá Ísafirði inn á Flateyri með mannskap og vistir. Allir viðbragðsaðilar hafa verið á fullu frá miðnætti og aðgerðir standa enn en fjöldahjálparmiðstöð verður opnuð á eftir á Flateyri. Veður er enn vont og mikilvægt að standa vaktina áfram. Stjórnvöld munu fylgjast grannt með.

Heyrði í nokkrum Vestfirðingum í morgun sem allir voru slegnir. Flóðin 1995 rifjast upp og það skelfilega manntjón sem varð þá. Heyrði líka í nokkrum kærum vinum að vestan og fann hversu þungt þessir atburðir lögðust á þá. Í dag erum við öll Vestfirðingar,“ segir forsætisráðherra ennfremur.