„Katrín er ein reynslumesta stjórnmálakona landsins og situr nú í forsæti í ríkisstjórn. Ríkisstjórn sem virðist hins vegar ekki standa fyrir neitt nema halda völdum. Hún getur gert miklu betur og á með réttu að vera í stöðu til að stýra þannig að það fari ekki á milli mála hver hennar áherslumál, hugsjónir og stefna eru. En í hverju málinu á eftir öðru veldur hún flokki sínum vonbrigðum og ýtir undir tilfinningu hjá öðrum að það eina sem skipti máli sé að halda völdum sama hvað. Það er eins og málamiðlun stjórnarflokkanna hafi ýtt hugmyndum, hugsjónum og fólki til hliðar.“
Þetta skrifar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, á fésbókarsíðu sína í kvöld, þar sem hún beinir spjótum sínum að Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Tilefnið eru varnir ríkislögmanns, sem heyrir undir forsætisráðuneytið, í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, en hann hafnar alfarið skaðabótakröfu sakborninga, eins og skýrt hefur verið frá í fjölmiðlum í dag.
„Forsætisráðherra segist nú, líkt og áður, ætla að finna lausn í Guðmundar- og Geirfinnsmálum sem aðilar geti verið sáttir við sem er í hróplegu ósamræmi við hljóðið í greinargerð ríkisins.
Sakborningar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu og fjölskyldur þeirra hafa þurft að þola nóg. Það eina sem er sorglegra en að þau hafi verið rænd lífsviðurværi sínu og ærunni er að þau þurfi enn að standa í baráttu við kerfið. Eftir allt sem á undan er gengið.
Þegar uppi er staðið er þetta spurning um prinsipp. Hvort ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sé tilbúin til að rétta ranglætið og standa við gefin loforð eða hvort hún ætli sér að draga lappirnar og viðhalda ofbeldi ríkisins í garð sakborninganna,“ segir Þorgerður Katrín.