„Í óheftu kapítalísku samfélagi dregst það versta fram í fólki“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. Myndin er af vef Sósíalistaflokksins.

Forsvarsmenn starfsmannaleigunnar Menn í vinnu fá harða ágjöf frá forystu verkalýðsfélagsins Eflingar í dag, en í fréttum í gær var sagt frá ömurlegum aðstæðum fólks hjá starfsmannaleigunni. Tugir starfsmanna frá Rúmeníu hírast í herbergjum, allt að tíu saman, en borga þó fimmtíu þúsund krónur á mánuði fyrir.

Í ráðningarsamningi frá fyrirtækinu sem Efling hefur undir höndum, er klausa sem segir að undirritaður skuldi leigu sem Menn í vinnu megi draga frá launum, án þess að upphæð eða nokkurs konar leiguvernd sé tiltekin, að því er segir á heimasíðu félagsins.

„Fólk spyr sig hvers vegna þetta gerist aftur og aftur hjá sömu fyrirtækjunum,“ segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar. „Ástæðan er að það eru engin viðurlög. Við tjáðum Samtökum atvinnulífsins að við viljum heimila sektir við brotum á kjarasamningi í viðræðum í síðustu viku, og fengum dræmar undirtektir þar.“

Viðar Þorsteinsson.

„Við erum annars vegar að díla við glæpamenn,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. „Hver er ástæðan fyrir að atvinnurekendur með ónýtan siðferðisáttavita hafa þennan hóp í sigtinu? Það er því þau eru jaðarhópur í samfélaginu. Þau sjá hóp af fólki þarna sem þau upplifa ekki sem mennskan. En við höfum hér líka kerfisbundið vandamál. Í óheftu kapítalísku samfélagi dregst það versta fram í fólki. Okkar róttæka nálgun í verkalýðsmálum byggist á því að leita svara við því. Arðránið sjálft er vandamálið. Gróðinn er hafinn á efsta stall og starfsfólkið sem við erum að tala um hér er kramið undir.“

Knúðu starfsmannaleigu í þrot í fyrra

Viðar segir Eflingu hafa sett þrýsting á fyrirtækin. „Þessi fyrirtæki fara út í svona ótrúlega ósvífni meðal annars vegna þess Efling hefur staðið sig ágætlega í að sækja mál á hendur þeim. Efling knúði stóra starfsmannaleigu í gjaldþrot með metfjölda launakrafna – áttatíu launakröfur — í maí á síðasta ári. Núna koma sömu aðilar til baka eins og stökkbreyttur vírus undir nýjum kennitölum. Núna gera þau þetta nánast rétt á pappírnum, gefa kannski út réttan launaseðil, en hafa fundið nýjar leiðir til að féfletta fólkið framhjá lögum og reglum.“

Starfsmenn kjaramálasviðs Eflingar hafa fundað með verkamönnunum sem um ræðir og eru í óða önn að safna frá þeim upplýsingum til að geta gert launakröfur. Einnig hafa starfsmenn fylgt ASÍ á vettvang og fylgst með velferð og ástandi verkamannanna. Tryggt hefur verið að þeir hafi mat að borða, segir á vefsíðu Eflingar.