Í skásta falli heimskuleg ákvörðun en jaðrar þó við að vera hreint hneyksli

Páll Magnússon, fv þingmaður Suðurkjördæmis og fv. útvarpsstjóri. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

„Þessi ákvörðun stjórnar RÚV er í skásta falli heimskuleg en jaðrar þó líklega frekar við að vera hreint hneyksli,“ segir Páll Magnússon, fv. útvarpsstjóri og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, um þá ákvörðun að birta ekki nöfn umsækjenda um stöðu útvarpsstjóra.

„Staða útvarpsstjóra er þeirrar gerðar að um hana, og þá sem sækja um hana, getur ekki og má ekki ríkja nein leynd. Þegar þessari ákvörðun er bætt við þá stórundarlegu yfirlýsingu sömu stjórnar um daginn, að RÚV hafi þurft sérstaka staðfestingu Ríkisendurskoðanda á því að stofnuninni bæri að fara að lögum (!), þá er óhjákvæmilegt að velta fyrir sér á hvaða vegferð þessi stjórn er. Og þeir sem velja hana,“ bætir Páll við í færslu sem birtist á fésbókinni.

Fram kom á vef Ríkisútvarpsins, að listi umsækjenda um stöðu útvarpsstjóra verði ekki birtur opinberlega eftir að umsóknarfrestur rennur út á mánudag. Þetta staðfesti Kári Jónasson, stjórnarformaður RÚV. Hann segir að stjórnin hafi samþykkt á síðasta fundi að fylgja ráðleggingu ráðningarfyrirtækisins Capacent um þetta. Þetta eigi, að sögn Capacent, að auka möguleika á að fá betri umsækjendur.

Magnús Geir Þórðarson hefur verið skipaður Þjóðleikhússtjóri frá áramótum. Margrét Magnúsdóttir skrifstofustjóri RÚV, er starfandi útvarpsstjóri.