„Íbúar í ósamþykktu atvinnuhúsnæði á meðan ferðafólk gistir í íbúðarhúsnæði“

Til harðra orðaskipta kom á Alþingi í dag, þegar Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, spurði Þórdísi Kolbrún Reykjfjörð Gylfadóttur fjármálaráðherra um „Þórdísarregluna“ um Airbnb (reglugerð nr. 649/2018) í óundirbúinni fyrirspurn á Alþingi í dag. Reglugerðin gerir fyrirtækjum sem eru með fjölda íbúða í skammtímaleigu til ferðamanna kleift að komast hjá því að skrá íbúðirnar sem atvinnuhúsnæði.

„Íbúar þessa lands búa í ósamþykktu atvinnuhúsnæði á meðan ferðafólk gistir í íbúðarhúsnæði,“ sagði Kristrún, en gríðarlegur skortur er á íbúðarhúsnæði í landinu og ekki hafa húsnæðisvandræði Grindvíkinga bætt úr skák.

Með því að fara þessa leið, komast fyrirtæki hjá því að greiða fasteignagjöld af atvinnuhúsnæði — sem geta verið allt að tíu sinnum hærri en af íbúðarhúsnæði — og þannig komast þau einnig hjá því að fylgja skipulagsreglum sveitarfélaga um atvinnuhúsnæði, sem takmarkast yfirleitt við ákveðin svæði.

Kristrún vísaði í máli sínu til nýkynnts kjarapakka Samfylkingarinnar. „Ein af tillögum okkar til að auka húsnæðisöryggi er að ná stjórn á Airbnb og skammtímaleigu íbúða.Það virðist nefnilega ríkja ákveðið stjórnleysi þarna — ekki síst þegar kemur að fyrirtækjum sem eru með fjölda íbúða í skammtímaleigu til ferðamanna,“ sagði formaðurinn og benti á eina tiltekna reglugerð sem virðist hafa haft skaðleg áhrif.

„Fjármálaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ætti að þekkja þessa reglugerð (nr. 649 frá árinu 2018) því að hún setti reglugerðina sjálf — á sínum tíma sem ráðherra ferðamála. Síðan þá hefur sú þróun ágerst af miklum þunga að nýjar íbúðir séu ekki nýttar til búsetu heldur fyrir ferðamenn — jafnvel heilu blokkirnar — án þess að sveitarfélög fái rönd við reist.

Ég vil því spyrja: Hvað gekk ráðherra til þegar hún setti reglugerð nr. 649 frá árinu 2018? Hvers vegna vildi ráðherra ekki að húsnæði sem nýtt er til skammtímaleigu í atvinnuskyni væri skráð sem atvinnuhúsnæði? Hvað gekk ráðherra til?,“ bætti hún við.

Í svari sínu vísaði fjármálaráðherra til þess að reglugerðin hefði verið sett til að setja ramma utan um starfsemi slíkrar skammtímaleigu. Taldi hún ríkið hafa gengið þar fram með ákveðnu fordæmi, en mikilvægt væri að skipulagsvaldið, sem er sveitarfélögin, léti einnig til sín taka. Hvatti hún formann Samfylkingarinnar til að beita áhrifum sínum hjá Reykjavíkurborg í þeim efnum. Á hinn bóginn væri ljóst að fjöldi skammtímaleiguíbúða væri mjög mikill og samkeppnisaðstaða milli aðila í slíkum rekstri og svo þeirra sem reka hótel og gististaði væru mjög mikill. Við því þyrfti að bregðast og breytingar á umræddri reglugerð kæmu til álita.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármála- og efnahagsráðherra.