Icelandair fari í þrot og verði endurreist með séríslenskri leið eins og bankarnir 2008

Icelandair hefur tapað tíu milljörðum á mánuði það sem af er árinu. Miðað við óvissuna sem uppi er í fluginu í heiminum, væri algjörlega óábyrgt af stærstu hluthöfunum, sem eru íslenskir lífeyrissjóðir, að leggja félaginu til meira fjármagn.

„Sennilega mun kalt mat þessara sjóða verða að leggja ekki meira fjármagn til félagsins og það væri í samræmi við nýjar leiðbeiningar Fjármálaeftirlits Seðlabankans til lífeyrissjóðanna um að stíga ekki skref sem geti stofnað fjármunum sjóðsfélaga í hættu,“ segir Stefán Einar Stefánsson viðskiptaritstjóri á Morgunblaðinu.

Í Hlaðvarpi Viljans ræðir Björn Ingi Hrafnsson við Stefán Einar og Hörð Ægisson viðskiptaritstjóra Fréttablaðsins um algera kólnun íslensks efnahagslífs og þær hörmungar sem verða að líkindum á næstunni á vinnumarkaði og í einkageiranum.

Þeir félagar eru sammála um að ríkisvaldið muni með einhverjum hætti þurfa að stíga inn. Hörður veltir því upp hvort stéttarfélög starfsmanna Icelandair muni ef til vill ekki átta sig á raunverulegri stöðu félagsins fyrr en gjaldþrotaleiðin sé komin á borðið.

Að mati Stefáns Einars þyrfti gjaldþrotaferlið að hefjast sem fyrst, félagið verði svo endurreist með tilstyrk ríkisins og svo komi hluthafarnir að borðinu.

„Við verðum einfaldlega að taka séríslenska leið við endurreisn flugfélagsins rétt eins og við fórum séríslenska leið við endurreisn bankakerfisins í árslok 2008.“ segir hann.