Icelandair fer í þrot náist ekki að endursemja: Staðan minnir á SAS fyrir 8 árum

Nú er því miður að ganga eftir sú spá sem viðskiptaritstjórar Fréttablaðsins og Morgunblaðsins settu fram í Hlaðvarpi Viljans í síðasta mánuði um lífróður Icelandair og nauðsyn þess að endursemja við helstu starfsstéttir um lækkaða kjarasamninga til lengri tíma.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, skrifaði starfsfólki bréf á innri vef þess í gær, þar sem segir að langtímasamningar við helstu starfsstéttir félagsins verði að liggja fyrir þegar hluthafafundur Icelandair fer fram eftir tæpar tvær vikur, föstudaginn 22. maí.

Bogi segir að viðræður ganga misjafnlega en viðræður við Flugfreyjufélag Íslands og Félag íslenskra atvinnuflugmanna séu erfiðar og mættu ganga betur. Unnið sé dag og nótt að því að tryggja félaginu fjármagn til lengri tíma til að bjarga fyrirtækinu.

„Helsta fyrirstaðan fyrir að það takist erum við sjálf, starfsfólkið sem starfar hjá fyrirtækinu,“ segir hann í bréfinu.

Eins og viðskiptaritstjórarnir bentu á fyrir nokkrum viku, er að teiknast upp nákvæmlega staða hjá Icelandair nú og gerðist hjá keppinautinum SAS í nóvember árið 2012.

Líf SAS hékk þá á bláþræði og ein af forsendum fyrir björgun var að endursemja við flugmenn og flugliða. Gjaldþrotapappírar höfðu verið undirritaðir og í því ljósi gáfu starfsmenn SAS að loknum eftir. Lánadrottnar unnu störukeppnina og gjaldþroti var forðað. Ef SAS hefði farið í þrot hefði það verið stærsta gjaldþrot í sögu Skandinavíu og 15 þúsund manns hefðu misst vinnuna.

Stjórnarformaður SAS viðurkenndi skömmu síðar, að þegar loks náðist að endursemja við starfsfólkið um lægri laun og lengri vinnutíma hafi aðeins verið laust fé til að reka félagið í tíu daga til viðbótar. Þetta hafi því ekki verið innantómar hótanir, eins og einhverjir vildu vera láta, heldur blákaldur veruleikinn.

Líklega er nákvæmlega sama staða komin upp nú hjá Icelandair, hvort sem fólki líkar betur eða verr. Og aðeins örfáir dagar til stefnu.

Sá möguleiki að Icelandair sé á leið í gjaldþrot, er ekki lengur fjarstæðukenndur. Því miður.