Iðavellir okkar daga og endurtekning tíðarandans

Sigurður Már Jónsson, blaðamaður skrifaði um loftslagsmálin og vanda vísindasamfélagsins.

„Í Valhöll forðum daga börðust einherjar daglangt á Iðavelli en að kvöldi risu hinir föllnu upp og settust að drykkju og aðra skemmtun. Aðeins þeir menn sem dóu í bardaga gátu orðið einherjar og mun þetta hafa verið nokkur huggun fyrir þá víkinga sem urðu vopndauðir og þeim jafnvel hvatning um að standa sig sem best í bardaganum. Af þessu leiddi að víkingar sáu í hyllingu einhverskonar líf eftir dauðann sem tæki öðru fram. Á Austurvelli dagsins í dag hefur um nokkurt skeið tíðkast að draga saman fólk undir merkjum aðskiljanlegustu málefna en líklega eiga flestir sem þar mæta það helst sameiginlegt að vera vinstri menn og hata Sjálfstæðisflokkinn. Þessi hópur er sundurgerðarlegur í klæðnaði en einsleitur í tali og virðist sjá fyrir sér að Austurvöllur breytist í Iðavelli verði ný stjórnarskrá samþykkt. Mestu hávaðamennirnir eru settir upp á svið og sumir fara með kveðskap en aðrir einhverskonar níðrímur. Að þessu er oft gerður góður rómur enda bíða ljúfar veitingar þátttakenda eins og í Valhöll forðum en barir og kaffihús miðbæjarins njóta þess þegar vígamóðurinn rennur af einherjum Austurvallar.“

Þetta skrifar Sigurður Már Jónsson, í pistli á mbl.is, þar sem hann lýsir tíðarandanum, aðdraganda hans og mannlífinu sem skapast hefur á Austurvelli í framhaldinu.

„En eins og gefur að skilja þá breytist tíðarandinn hratt“, segir Sigurður Már eftir að hafa gert gullöld áranna fyrir hrun skil, niðurlægingunni eftir hrunið og stemminguna í framhaldinu, sem enn er að hluta við lýði. Hann rifjar því upp orð Jónasar Haralz hagfræðings sem lagði út af upphafsorðum Charles Dickens úr bókinni Saga tveggja borga, í grein í Lesbók Morgunblaðsins 1970, um ástand þess tíma:

„Við höfum lifað tíma mestu framfara og velmegunar, sem um getur, en við höfum einnig lifað tíma hungurs, klæðleysis og híbýlaskorts mikils hluta mannkyns. Við höfum lifað öld mikilla uppgötvana og afreka i vísindum og tækni en jafnframt öld eyðingar gróðurs og dýralífs, mengunar lofts og lagar. Við höfum lifað skeið trúar á það að velmegun færði okkur hamingju og öryggi en jafnframt skeið almennrar angistar. Við höfum lifað árstíð nýfengis sjálfstæðis ungra þjóða og gamalla og árstíð þess myrkurs, er þær eyddu orku sinni í innbyrðis valdastreitu og þegnar þeirra bárust á banaspjótum. Við höfum lifað vordaga vonarinnar, er frelsið virtist gróa að nýju, og við höfum séð þann veika vísi frjósa í hel á vetri örvæntingarinnar. Við höfum alið unga kynslóð, sem öll veraldleg gæði átti i vændum i miklu ríkari mæli en nokkur kynslóð á undan henni, og við höfum séð þessa sömu kynslóð í vaxandi mæli afneita þeim gæðum, sem að henni voru rétt.“

Upplifun okkar nú sé þannig engan veginn ný, henni hafi verið lýst á dögum Charles Dickens og Jónasar Haralz, og líkindin séu talsverð.

„En hvort sem tímarnir eru vondir eða góðir heldur umræðan áfram“, segir Sigurður Már, og fer yfir það hvernig hún geti á köflum verið ískyggileg.

Lesa má pistil Sigurðar Más í heild sinni hér.