Íhaldsmenn óhressir: Á endanum springa menn og gefast upp á flokknum

Fannar Hjálmarsson.

„Okkur er hótað að það verði pólitískt uppnám ef við beitum ákvæðum sem við höfum í EES samningnum, til að vísa orkupakkanum til baka. En á meðan er og vex pólitískt uppnám hér innanlands. Forysta Sjálfstæðisflokksins og frammámenn þar, hafa alltaf litið á okkur íhaldsmenn sem trygg atkvæði sem ekki hafi í nein önnur hús að vernda. Þess vegna geti þau sparkað í okkur eins og þau vilja án afleiðinga. En mælirinn fyllist alltaf á endanum ef aldrei er tappað af. Á endanum springa menn hreinlega og gefast upp á flokknum.“

Þetta segir Fannar Hjálmarsson, félagi í Sjálfstæðisflokknum. Hann á sæti í fjárlaganefnd flokksins og hveðst vera bitur yfir því að hafa fylgst með Bjarna Benediktssyni og öðrum í forystu Sjálfstæðisflokksins beygt sig undanfarna tvo áratugi fyrir ESB-sinnum innan flokks og nú utan.

„Við áttum alltaf að gefa eftir til að halda friðinn,“ segir hann. „Fólk kaus gegn ályktunum sem voru of harðar, ekki af því að það var ósammála, heldur vegna þess að forystumenn töluðu það til. Fengu það til að kjósa gegn eigin sannfæringu (þessari sem talsmenn orkupakkans er tíðrætt um þingmenn) til þess að halda flokknum saman og halda friðinn,“ segir Fannar í færslu á fésbókinni, þar sem hann deilir frétt Viljans um ályktun sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi sem ekki var birt opinberlega heldur stungið undir stól stjórnar kjördæmisráðsins, uns tillöguflytjendur brugðu á það ráð að greina opinberlega frá efni hennar.

„Bjarni fór gegn landsfundi þegar hann lofaði þjóðaratkvæði um ESB til að koma til móts við ESB-sinna. Bjarni fór gegn landsfundi til að samþykkja Icesave. Bjarni fer núna gegn landsfundi til að samþykkja Orkupakkann.

Og núna þarf að mati Bjarna og annarra forystumanna ekki að halda friðinn. Þetta eru bara íhaldsmenn. Þeir kjósa ekkert annað. Þeir fara aldrei. En þar hefur hann rangt fyrir sér. Íhaldsmenn fara seint. En þegar þeir eru farnir, þá koma þeir ekki aftur og þar með hefur flokkurinn tapað fasta fylgi um alla framtíð,“ bætir Fannar við.