Peningaþvættishneykslin sem nú vella út um allar rifur og sauma í Evrópu kunna að virðast eins og afturhvarf til fortíðar, en uppræting peningaþvættis var stórmál á fyrri hluta áratugarins, að því er Bloomberg-fréttaveitan segir frá í fréttaskýringu sem verður endursögð hér.
HSBC-banki fékk 1,9 milljarða dollara sekt árið 2012 fyrir að höndla með fé úr mansali, frá hryðjuverkahópum og ríkjum á svörtum lista eins og Íran. Árið 2014 þurfti BNP Paribas SA að greiða tæpa 9 milljarða Bandaríkjadala fyrir að skipta við Íran ásamt öðrum löndum sem Bandaríkin eru með á svörtum lista, svo sem Kúbu og Súdan.
Árið 2015 varð Commerzbank AG að reiða fram 1,45 milljarða dollara í sektargreiðslur til bandarískra eftirlitsaðila fyrir að eiga viðskipti við sum þessara landa. Veruleikinn er sá að alltaf skal vera einhver einhvers staðar sem reynir að hvítþvo illa gengið fé með því að streyma því í gegnum lögmæt fyrirtæki og banka.
Hví ætti það koma á óvart nú, að nokkrir bankar í Skandinavíu skyldu vera gripnir við að meðhöndla grunsamlegt Rússagull?
Rússneskt fé er víða falið
Rússar eiga milljón milljarða dollara erlendis, skv. Bloomberg Economics og rannsókn sem hagfræðingarnir Filip Novokmet, Thomas Piketty og Gabriel Zucman gerðu árið 2017. Fundu þeir flesta fjársjóðina grafna í Bretlandi, Sviss og á Kýpur. Það hefur verið opinbert leyndarmál þar til nú, að frekar fáir Evrópubúar létu það fara í taugarnar á sér, þó að illa fengið fé rynni í gegnum fjármálakerfin og fasteignamarkaðina. Sannarlega var það ekki nóg til að þrýst yrði á alvöru umbætur, jafnvel þó að áhrif þess væru augljós á leigu og verð á veitingastöðum, í hverfum eins og Knightsbridge og Mayfair í London.
Eftir hrun kommúnismans hefur leki auðs frá Rússlandi, illa fengins eður ei, verið álitinn vandamál fyrir Moskvu en hvalreki fyrir Vesturlönd, sem fengu peninga til að endurlífga slypp og snauð fótboltafélög eins og Chelsea og uppsprengda eftirspurn eftir fasteignum í London, New York og Monte Carlo. Bretland sýndi áhugaleysi sitt síðast í nóvember 2017, þegar stjórnvöld leyfðu Oleg Deripaska, sem settur hefur verið á svartan lista bandarískra stjórnvalda síðan þá fyrir að hafa leppað hátt settan rússneskan embættismann, að stunda viðskipti með ál- og orkufyrirtæki sem hann stjórnaði, í kauphöllinni í London.
Þann 4. mars 2018 voru fyrrum rússneskur njósnari, Sergei Skripal og Yulia dóttir hans, flutt með hraði á spítala eftir að hafa fallið saman á bekk nærri verslunarmiðstöð í Salisbury. Þau höfðu orðið fyrir eiturefnaárás með taugaeitri í ilmvatnsflösku, sem einungis á að vera til í fórum hernaðaryfirvalda, en feðginin lifðu árásina af. Bresk kona að nafni Dawn Sturgess var ekki svo heppin, en kærastinn hennar fann flöskuna og færði henni að gjöf. Atvikið varð til þess að yfir 100 rússneskir diplómatar voru gerðir brottrækir frá Evrópu og Bandaríkjunum, ákærur voru gefnar út á hendur þeim tveimur rússneskum leyniþjónustumönnum sem frömdu tilræðið og furðuviðtal við þá tvo, var flutt í rússnesku sjónvarpi þar sem þeir lýstu því yfir að þeir hefðu einungis verið ferðamenn.
Hið misheppnaða banatilræði við Skripal feðginin hefur kynt undir reiði Evrópumanna í garð Rússagullsins og beint henni að bönkunum sem láta meðhöndlun þess líðast. „Stefna Rússlands gagnvart Vesturlöndum er komin langt framúr því að varða bankaeftirlit, og er orðið að þjóðaröryggismáli,“ er haft eftir Nicolas Véron, hátt settum meðlim í Bruegel í Brussel. Ósvífni tilræðisins og skeytingarleysið um líf saklausra borgara hefur sannfært marga Breta og Evrópumenn um að óforskömmuð hegðun Rússlands sé nú orðin ógn við þau sjálf.
Að stærstum hluta var um Rússagull að ræða, í risa peningaþvættismáli sem upp kom hinu megin Norðursjávarins, hjá Danske Bank í september 2018. Seint í febrúar sl. kom í ljós að Swedbank var að auki flæktur í málið.
Undirliggjandi ótti vegna Skripal málsins og hið gríðarmagn fjármuna sem streymir í gegnum evrópska banka þykir nú hafa stigið langt útfyrir mjóa syllu fjármálaeftirlits og reglna. Rússar völdu Eystrasaltsríkin, þar sem bankar á Norðurlöndunum hafa verið með mikla starfsemi, til að tengja fjármunina svæðum þar sem spilling er álitin einna minnst.
Danske Bank reyndi að gera lítið úr málinu til að byrja með, en gaf í september sl. út að um 230 milljarðar dollara af grunsamlegu fé hefði streymt í gegnum aðalútibú bankans í Eistlandi. Síðan þá hefur verið að koma í ljós mynd sem tengir marga banka í Skandinavíu, þar á meðal hinn sænska Swedbank og finnska Nordea bankann, sem Rússar hafa notað til að flytja peninga til Vesturlanda. Sumar færslurnar hafa verið tengdar sjóðum sem Sergei Magnitsky fann, en hann dó í rússnesku fangelsi árið 2009 eftir að hafa flett ofan af gríðarlegum skattsvikum embættismanna og aðrir sjóðir hafa verið raktir til Igor Putin, frænda Rússlandsforseta, Vladimir Putin, en hann hefur setið í bankaráðum rússneskra banka sem hafa dregið að sér eigur fjárfesta og fært fjármuni ólöglega úr landi.
Fyrrum vinnuveitandi Magnitsky, breskur fjármálamaður sem fæddist í Bandaríkjunum, að nafni Bill Browder, hefur unnið í áratug að því að reyna að finna þá 230 milljarða dollara sem embættismennirnir sviku undan skatti. Hann hefur reynt að sannfæra bandarísk stjórnvöld um að setja lög sem leyfa að þeir verði ákærðir og sóttir til saka fyrir svikin og tengsl við dauða Magnitsky. Browder hefur einnig þrýst á banka, löggjafa og dómstóla í Evrópu að líða ekki lengur grunsamlega fjármuni.
„Rannsókn okkar heldur áfram að leiða í ljós nýjar sannanir, upplýsingar og grunsamlegar viðskiptafærslur,“ sagði Browder í sjónvarpsviðtali hjá Bloomberg.
Á meðan sumir sjóðir sem streymdu í gegnum banka í Skandinavíu hafa verið tengdir Rússlandi, Moldovu og Azerbaijan, þá er enn óljóst hvaðan þeir koma upphaflega eða hver er á bakvið megnið af færslunum. En ljóst er að peningarnir stoppuðu ekki í Eystrasaltsríkjunum. „Þetta fé streymdi ekki úr Danske Bank út í Eystrasaltið, heldur inn í einhverja Evrópska banka,“ er haft eftir Krisjanis Karins, forsætisráðherra Lettlands.
Deutsche Bank gaf út nú í janúar að þar hefði hafist víðtæk skoðun á viðskiptum aðalútibúsins með færslur fyrir hönd Danske Bank í Eistlandi. Deutsche Bank hefur endurtekið gefið út að enn eigi eftir að finna út hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis í þeirra meðförum. Bandaríski seðlabankinn er einnig að rannsaka hlutverk Deutsche Bank í viðskiptunum ásamt þýska bankaeftirlitinu. „Bankarstarfmenn og almenningur hefur vaknað til meðvitundar eftir þessi stóru peningaþvættismál sem nú eru komin upp í Evrópu,“ sagði Thorsten Poetzch, yfirmaður eftirlits með peningaþvætti hjá þýska fjármálaeftirlitinu. Hann vildi ekki nefna einstakar stofnanir.
„Bankarnir eru að átta sig á að peningaþvætti er ekki aðeins spurning um að verða fyrir kostnaði, heldur getur það einnig ógnað tilvist þeirra.“
Stjórnvöld í Evrópu hafa löngum verið seinni til vandræða vegna peningaþvættis Rússa en þau bandarísku. Ríkissjóður Bandaríkjanna löðrungaði Lettland og seðlabanka Evrópu í febrúar 2018 með fullyrðingum um að lettneski bankinn ABLV Bank væri aðalsprautan í að þvætta illa fengið fé frá Rússlandi og Úkraínu, ásamt því að tengja hann við vopnaáætlun Norður-Kóreu.
Jafnvel fyrir Skripal-tilræðið og áður en umfang peningaþvættis Danske Bank varð ljóst, höfðu Bandaríkin þrýst á Evrópu að fara að taka til hendinni. Með því að neyða þriðja stærsta banka Lettlands, ABLV, til að hætta starfsemi, varð skv. bandarískum embættismanni, ljóst hver er raunverulega er að hafa eftirlit með peningaþvætti. Hann segir að Lettland hafi eftir þetta gert stefnubreytingu. Karins, sem varð forsætisráðherra Lettlands í janúar, hefur óskað eftir stífari reglum og upprunavottun fjár í fjármálakerfunum þar. Hann hefur minni trú á að hin Evrópuríkin muni fylgja í fótspor Lettlands.
Litháen hefur verið að reyna að fá aðstoð Bandaríkjanna. Í júní í fyrra heimsóttu litháískir starfsmenn seðlabankans bandaríska seðlabankann og ríkissjóð til að reyna að útskýra fyrir þeim að bankastarfsemi í Litháen væri öðruvísi en í Eistlandi og Lettlandi. „Við erum ekki fædd í gær,“ sagði Litháíski seðlabankastjórinn Vitas Vasiliauskas við blaðamenn 8. mars sl.
„Gríðarmiklar peningafjárhæðir streymdu inn á bankamarkað Eystrasaltsríkjanna og sumar risafjárhæðir fundust í máli Danske Bank.“ Hann bætti því við að óraunhæft væri að halda að engir grunsamlegir sjóðir streymdu í gegnum reikninga í Litháen.
Eistland fleygði Danske Bank út í febrúar. Bankinn svaraði með því að lýsa því yfir að hann myndi yfirgefa Eystrasaltsríkin og Rússland. Kilvar Kessler, yfirmaður fjármálaeftirlits Eistlands, sagði nú í mánuðinum, að yfirvöld þarlendis væru að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að hreinsa til hjá sér og hafi verið að því undanfarin fimm ár. „Við þurfum sameiginlegt átak, þar sem að orðspor svæðisins er í húfi,“ bætti Vasiliauskas við.
Hefðbundið orðspor skandinavísks bankakerfis um að vera laust við spillingu hefur verið styrkur þess. Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð hafa vermt sjö efstu sætin yfir lönd með hvað minnsta spillingu hjá alþjóðlegu samtökunum Transparency International, sem sjá um að gera og gefa út slíkar mælingar. Umfang peningaþvættis er þó ekki ein af mælistikunum sem notast er við þar. Alþjóðlega skrifstofan Financial Action Task Force sem berst gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, gaf löndunum á hinn bóginn einkunn í meðallagi, á meðan Bandaríkin hljóta hæstu einkunnir á mörgum þeim sviðum sem mæld eru.
Árið 2017 gaf skrifstofan út ófagra skýrslu um danskar forvarnir gegn peningaþvætti og gagnrýndi af hörku bolmagn Dana til að sporna við slíkum glæpum. Jesper Berg, yfirmaður danska fjármálaeftirlitsins, kvaðst hafa lofað sjálfum sér því að fá aldrei aftur jafn slæma umsögn.
En hversvegna seytlar fé í gegnum göt og rifur í Evrópu? Vegna þess að á meðan peningar flæða frjálst yfir landamæri og á milli banka, þá er ósamræmi í regluverki um varnir og eftirlit gegn peningaþvætti auk þess sem það er mislangt á veg komið, og viðleitni til að sporna við því er einkamál einstakra ríkja. Bankaregluverk Evrópu var hannað til að verja skattgreiðendur fyrir því að þurfa að bjarga föllnum bönkum, ekki til að koma í veg fyrir peningaþvætti.
Erfitt verður að fá því breytt. Evrópuráðið hefur lagt til að Evrópska bankaeftirlitið fái meiri völd til að hefja rannsóknir í einstökum ríkjum Evrópu. Fé hefur verið veitt til ráðningar aðeins tylft starfsmanna, sem þykir ansi fámennur hópur miðað við stærð verkefnisins framundan, skv. José Manuel Campa, sem á að taka við skrifstofunni á þessu ári. Ennfremur hafa embættismenn í ríkjunum sýnt tregðu við því að sett verði á fót miðstýrt evrópskt vald til að hafa eftirlit með þeim. Nú þegar lýðskrumsflokkar ríða röftum í Evrópu, verður erfitt að fá samþykki fyrir Evrópusambandsyfirvaldi sem gæti fyrirskipað rannsóknir og úttektir á bönkum eða gert bankareikninga fólks upptæka.
Efasemdir um miðstýringu
„Þetta snýst um glæpastarfsemi, þeirra eigin lögsögu, þeirra eigin löggæslu og það er ekki samevrópskt verkefni í dag,“ sagði Erik Thedeen, yfirmaður sænska fjármálaeftirlitsins. „Ég er svolítið efins um að halda því fram að allt eigi að vera miðstýrt.“ Á ráðstefnu Samtaka evrópskra banka í Stokkhólmi, þann 8. mars sl. hafði hinn danski Jens Berg ekki mikla trú það yrði einfalt verkefni að sameina krafta löggæslu, eftirlitsaðila og saksóknara einstakra ríkja við miðstýrða samevrópska skrifstofu.
Morðtilraunin á Skripal feðginunum olli mestum titringi í Bretlandi. Þrátt fyrir að tilraunir til að reyna að bjarga London úr því að vera miðstöð illa fengins fjár hafi þegar verið hafnar, þá hafði banatilræðið með efnavopni mest áhrif. „Salisbury tilræðið hefur gert það ljóst að þjóðaröryggi er stefnt í hættu af Rússum, og peningaþvættið er því náskylt,“ sagði Browder.Rétt áður en tilræðið varð, hafði Bretland sett lög um óútskýrðan auð, sem ásamt öðrum tólum, gefur stjórnvöldum heimildir til að gera upptækar eignir sem eigendur geta ekki gert grein fyrir. Viðmót Breta gagnvart Rússum hvesstist mjög eftir banatilræðið og Bretland hóf röð aðgerða gegn Rússlandi ,meðal annars með því að senda burt 23 diplómata og endurnýja ekki landvistarleyfi rússneska milljarðamæringsins Roman Abramovich, eiganda Chelsea-fótboltaliðsins, sem flutti til Ísraels.
Evrópa hefur átt í vandræðum með eftirlit með peningaþvætti, svo margir bankar þar hafa leitað á náðir Bandaríkjanna og hafa sjálfir byrjað að breyta reglum og sektarfjárhæðum. Franskur dómstóll sektaði í síðustu viku svissneska bankann UBS um 5,1 milljarða dala, hæstu sekt í sögu landsins, fyrir að aðstoða viðskiptavini sína við að þvætta duldar eignir. UBS hefur áfrýjað úrskurðinum. Í Þýskalandi tók bankaeftirlitið áður óstigið skref með því að skipa eftirlitsaðila til að fylgjast með viðleitni Deutsche Bank til að bæta úr peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Í nóvember réðust 170 lögregluþjónar inn í höfuðstöðvar bankans í Frankfurt til að leita upplýsinga vegna gruns um peningaþvætti og vörslu gagna um skúffufyrirtæki á borð við þau sem fundust í hinum frægu Panamaskjölum.
Samkvæmt bandarískum embættismönnum sem vinna við upprætingu peningaþvættis, eru Þýskaland og Frakkland skuldbundin til að gera hið sama. Um leið og löndin byrji á því muni önnur lönd fylgja á eftir. En jafnvel í Bretlandi hefur breytingin aðeins verið eins og lélegur plástur. Í byrjun desember sl. tilkynntu stjórnvöld um að þau myndu fresta áritun vegabréfa fyrir ríkmenni, útiloka fasta búsetu og hafna umsóknum um breskan ríkisborgararétt, sem var orðinn eftirsóttur hjá rússneskum ólígörkum og auðugum Kínverjum.
Innan við viku síðar var ákvörðuninni frestað. Hinn 7. mars sögðu bresk stjórnvöld að þau væru að þrengja reglur um vegabréfsáritanir, og krefjast þess að umsækjendur sýni fram á að þeir hafi haft umráð yfir sjóðum sínum í að minnsta kosti tvö ár, eða að geta sýnt fram á uppruna þeirra.
Það er auðvelt fyrir bankastjóra, eftirlitsaðila og stjórnmálamenn að tala um harðar aðgerðir gegn ólöglegum fjármunum. Framkvæmd aðgerðanna gæti reynst mun erfiðari.