Inga grét og Steingrímur brást reiður við. Kallaður úlfur í sauðagæru

Forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Til harðra orðaskipta kom á Alþingi í dag þegar sá óvenjulegi atburður varð, að Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, kvaddi sér hljóðs í andsvörum við ræðu Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, og lét hana heyra það vegna ásakana hennar í garð Jóhönnu Sigurðardóttur fv. félagsmálaráðherra. Inga hafði skömmu áður grátið í ræðustól vegna svokallaðra krónu á mótu krónu skerðinga. Fv. ráðherra segir að forseti Alþingis hafi þarna sýnt fordæmalausa framkomu og kallar hann úlf í sauðagæru.

„Króna á móti krónu skerðing, eigum við að tala um hana? Hvenær var hún sett á? Hvers vegna króna á móti krónu skerðing? Jú, í kjölfarið á hruninu var talin ástæða til að seilast í vasa þeirra sem höllustum fæti stóðu í samfélaginu. Þeir áttu líka að taka þátt í því áfalli sem þjóðin varð fyrir. Það var í höndum vinstri flokkanna, velferðarstjórnarinnar, sem króna á móti krónu skerðingin var sett á með aðstoð allra hinna. Hér hefur hún verið í tíu ár,“ sagði Inga í ræðu sinni.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

„Ég stend hér til að berjast gegn fátækt. Ég stend hér fyrir þjóðfélagshópinn sem ég er búin að tilheyra alla mína ævi. Það að þurfa að horfa upp á þessa lítilsvirðingu gagnvart þessum þjóðfélagshópi sýknt og heilagt á hinu háa Alþingi er alveg ótrúlegt. Ég held að ég hafi ekki farið að grenja síðan ég fór að grenja í beinni útsendingu fyrir síðasta kjördag. Eitt er víst, að á þetta verður látið reyna fyrir dómi. Það getur ekki verið mögulegt að þetta sé löglegt. Það er ekki hægt. Króna á móti krónu, fátæktargildra, mismunun, brot á jafnræði — það getur ekki verið löglegt,“ bætti hún við.

Orðinn ansi hugsi yfir því hvert samtök öryrkja og samtök aldraðra eru komin 

Þegar ræðu Ingu var lokið hafði Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, beðið um að veita andsvar. Óhætt er að fullyrða, að slíkt er afar fágætt á þingi, enda reynir forseti jafnan að vera forseti allra þingmanna og blanda sér lítt í pólitískar deilur.

„Herra forseti. Þó að ég sé hér forseti og blandi mér ógjarnan í pólitískar umræður sit ég ekki þegjandi undir rangfærslum og óhróðri af því tagi sem Inga Sæland hafði um ríkisstjórn okkar Jóhönnu Sigurðardóttur. Það er rangt að sú ríkisstjórn hafi tekið upp krónu á móti krónu tengingu. Það sem er rétt er að Jóhanna Sigurðardóttir kom sem félagsmálaráðherra á sérstakri uppbót á lífeyri vegna framfærslu. Það þótti þá stórkostleg réttarbót og þar var verið að bæta kjör þess hóps sem lakast var settur og fáir virðast muna eftir í dag. Ég er orðinn ansi hugsi yfir því hvert samtök öryrkja og samtök aldraðra eru komin þegar nánast enginn talar orðið um þann hóp félagsmannanna sem er lakast settur og ekkert hefur annað en strípaðar greiðslurnar.

Svo líður tíminn og allt í einu er það orðið stórkostlegt ranglæti að þessi sérstaka uppbót ofan á aðrar almennar greiðslur kerfisins — já, var vissulega tekjutengd og vék á móti öðrum tekjum af því að það var verið að reyna að nota takmarkaða fjármuni til að aðstoða þann hluta hópsins sem var lakast settur. Menn þurfa aðeins að kunna hlutina áður en þeir taka upp í sig stór orð. Meðan ég er á þingi og hef málfrelsi sit ég ekki þegjandi undir svona löguðu. Jóhanna Sigurðardóttir, einn merkasti félagsmálaráðherra þessarar þjóðar, á annað og betra skilið frá kynsystrum sínum,“ sagði Steingrímur.

Gamli Steingrímur skýtur æ oftar upp kollinum

Ummæli forseta Alþingis hafa vakið töluverða athygli og sýnist sitt hverjum. Þannig segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins og fv. utanríkisráðherra, á fésbókinni, að hann muni ekki eftir því að sitjandi forseti þingsins hafi komið fram með þeim hætti sem Steingrímur gerði í morgun.

Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður og fv. utanríkisráðherra.

„Hundskammar Ingu Sæland sem þó fór með rétt mál, notar ekki rétt ávarpsorð, skammar samtök öryrkja og aldraðra, sakar þingmanninn um að virða ekki kynsystur sína líkt og kyn skipti máli í þessu og svo framvegis,“ segir hann.

Gunnar Bragi bætir við, að það sé skemmtilega sé að gamli Steingrímur sjóti æ oftar upp kollinum, sá sem grætt hafi þingmenn VG er hann var formaður.

„Núverandi forseti Alþingis er nefnilega úlfur í sauðagæru,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson.