Ingibjörg fékk 18 milljónir frá Seðlabankanum vegna MPA-náms

Ingibjörg Guðbjartsdóttir. / Vb-mynd/HAG

Ingibjörg Guðbjartsdóttir, þáverandi framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands, fékk tæplega átján milljónir í námsstyrk, laun og endurgreiddan kostnað frá bankanum meðan hún var í námsleyfi og sótti MPA-nám í Bandaríkjunum. Hún sneri ekki til starfa hjá bankanum að námi loknu.

Þetta hefur Viljinn eftir öruggum heimildum innan úr Seðlabankanum. Lögmenn bankans hafa nú lagt beiðni fyrir Héraðsdóm Reykjaness um flýtimeðferð máls sem hann hyggst höfða gegn blaðamanni Fréttablaðsins, en með málsókninni vill Seðlabankinn freista þess að fá niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál um rétt blaðamannsins til upplýsinga ógilta, að því er blaðið greinir frá á forsíðu í dag.

„Í nóvember á síðasta ári óskaði blaðamaður eftir upplýsingum frá Seðlabankanum um samning sem Már Guðmundsson, fráfarandi seðlabankastjóri, gerði við Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, þáverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits bankans, um styrk og laun í námsleyfi meðan hún sótti MPA-nám í Bandaríkjunum. Ingibjörg kom ekki aftur til starfa fyrir bankann að námi loknu en samningurinn var hugsaður sem starfslokasamningur. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er verðmæti samningsins hátt á annan tug milljóna og mun hærra en annarra námsstyrkja sem starfsfólki bankans standa til boða.

Krefst frestunar réttaráhrifa

Bankinn hafnaði beiðni blaðamannsins um upplýsingar og sneri blaðamaðurinn sér þá til úrskurðarnefndarinnar. Nefndin kvað upp þann úrskurð tæpum átta mánuðum eftir fyrstu beiðnina að bankinn væri skyldugur að afhenda blaðamanninum samninginn. Því vildi bankinn ekki una og óskaði eftir frestun á réttaráhrifunum meðan málið yrði rekið fyrir dómstólum og nefndin varð við þeirri beiðni í síðustu viku.

Frestun réttaráhrifa er bundin því skilyrði að málinu verði vísað til dómstóla innan sjö daga frá því frestunin var samþykkt.

Í beiðni bankans um flýtimeðferð málsins fyrir dómstólum er meðal annars vísað til þess að úrlausn málsins verði fordæmisgefandi og kunni að geta skipt sköpum fyrir túlkun ákvæðis upplýsingalaga sem varðar upplýsingar um starfsmenn stjórnsýslunnar. Fram kemur að málið varði ekki aðeins mikilvæg réttindi blaðamanna heldur einnig þeirra mörgu starfsmanna sem starfa hjá hinu opinbera.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri og formaður Peningastefnunefndar bankans veitti Ingibjörgu hinn umdeilda námsstyrk sem á sér engin fordæmi.

Réttarhlé stendur nú yfir hjá dómstólunum og óvíst hvenær afstaða til flýtimeðferðar verður tekin,“ segir ennfremur í Fréttablaðinu.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem Viljinn hefur aflað sér, eru engin dæmi um að einstaklingur hafi fengið jafn stóran námsstyrk hér á landi, sem greiddur er með skattfé, án þess að hann hafi verið auglýstur sérstaklega og aðrir fengið tækifæri til að sækja um. Þá þekkja menn heldur ekki dæmi þess að opinber aðili á borð við Seðlabankann leggi sig jafn mikið fram um að leyna upplýsingunum um þennan gjörning og raun ber vitni.

Jafnframt lýsa viðmælendur Viljans furðu yfir því að Blaðamannafélag Íslands skuli ekki hafa risið til varna fyrir rétt fjölmiðla til að birta upplýsingar sem augljóslega eigi erindi til almennings.

„Stjórnendur Seðlabankans vita að þetta þolir enga skoðun,“ segir viðmælandi Viljans sem þekkir vel til. „Svona er engum heimilt að ráðstafa almannafé og þess vegna neitar bankinn að afhenda gögn, þrátt fyrir úrskurði þar um. Yfirstjórn bankans veit hvers konar hneyksli er um að ræða.“