Ingibjörg Sólrún gagnrýnir RÚV fyrir viðtal við íslenskan nasista

Skjáskot úr þættinum sem sýndur verður annað kvöld.

„Það er í sjálfu sér gott framtak að tryggja meiri fjölbreytni í þeim hópi sem rætt er við í útvarpi en hér finnst mér RUV seilast of langt. Hér er um að ræða manneskju sem hefur tattúerað upphafsstafi Adolfs Hitlers á hálsinn á sér (18 sem stendur fyrir AH) sem þýðir að skoðanir hennar eru ekki aðeins skoðanir sem falla ekki í kramið hjá „hinum venjulegu“, heldur leiddu slíkar skoðanir til helfararinnar og annarra voðaverka sem alþjóðasamfélagið, þar með talið Ísland, hefur sammælst um að koma í veg fyrir með öllum tiltækum ráðum að verði endurtekin.“

Þetta segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fv. utanríkisráðherra , sem nú stýrir stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Tilefnið er viðtal sjónvarpsmannsins Jóns Ársæls Þórðarsonar við Sigríði Bryndísi Baldvinsdóttur, tveggja barna móður og þjóðernissinna, sem kippir sér ekki upp við að vera kölluð nasisti.

Í dagskrárkynningu segir:

„Sigríður Bryndís hefur mikinn áhuga á forni norrænni dulspeki og segist vilja að Íslendingar varðveiti þjóðerni sitt, menningu og tungu. Hún hefur látið húðflúra C18, þar sem 18 stendur fyrir AH, upphafsstafi Hitlers, á hálsinn á sér. Sigríður Bryndís dregur í efa að helför nasista hafi verið jafn víðfeðm og af er látið, heldur að færri hafi látist en haldið er fram, þó hún harmi hvernig fór.

Þannig þú ert á móti nasismanum? „Alls ekki sko, ekkert frekar en kommúnismanum. Þetta er bara pólitík þess tíma.“ En hann lifir, nú tölum við um nýnasisma? „Já, ég hef nú talað við ansi mikið af þessu fólki og þetta eru bara venjulegir þjóðernissinnar. Ef maður þarf að vera nasisti af því maður er þjóðernissinni, þá bara erum við það. Það snertir okkur ekki að vera kölluð nasistar eða rasistar. Við erum þjóðernissinnar og vitum það. Hvað aðrir segja er þeirra vandamál.“

Þess má geta, að Ríkisútvarpið tekur fram í dagskrárkynningu, að sjónarmið sem komi fram í þættinum eru alfarið sjónarmið viðmælandans og endurspegli ekki með nokkrum hætti sjónarmið eða viðhorf þáttastjórnanda eða RÚV. Er einstakt að slíkt sé tekið fram sérstaklega af hálfu Ríkisútvarpsins.

Ingibjörg Sólrun Gísladóttir fv. utanríkisráðherra.

Ingibjörg Sólrún telur að RÚV sé á villigötum með því að sýna viðtalið:

„Það verður ekki gert með því að bjóða fólki með slík sjónarmið að koma þeim á framfæri við alla landsmenn, heldur með því að upplýsa fólk um það sem gerðist og tala fyrir umburðarlyndi og jafnrétti og gegn fordómum og mismunun hvort sem er á grundvelli trúarbragða, litarháttar, uppruna eða annarra þátta,“ segir Ingibjörg Sólrún á fésbók og gerir eftirfarandi orð aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna að mínum:

„Það er uggvekjandi að heyra hatursfullt bergmál löngu liðinna tíma og að horfa upp á hryllilegar skoðanir verða hversdagslegar. Við skulum ekki gleyma lærdómum fjórða áratugarins. Það getur aldrei verið pláss fyrir hatursfulla orðræðu, umburðarleysi og útlendingahatur. Við munum berjast gegn því hvar sem er, hvenær sem er.”

Umrætt viðtal verður sýnt í Ríkissjónvarpinu annað kvöld. Það átti fyrst að birtast sl. sunnudag, en var tekið af dagskrá þar sem það bar upp á sama dag og alþjóðlegur minningardagur helfararinnar.