„Innkauparáð gerði ítrekað athugasemdir í fundargerðum við braggann, Nauthólsveg 100, frá því sumarið 2017 og öðru hvoru allt árið. Allar þessar fundargerðir fóru fyrir borgarráð og hefðu ekki átt að fara fram hjá borgarstjóra, Degi B. Eggertssyni,“ segir Björn Gíslason, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, en hann á einnig sæti í Innkauparáði sem margoft kallaði eftir upplýsingum um Braggamálið.
Björn undrast að borgarstjóri komi nú af fjöllum þegar framúrkeyrslan á bragganum sé rædd, því hann hafi samþykkt allar fundargerðir innkauparáðs þar sem ítrekað var spurst fyrir um málið.
„Ef það er rétt að allar þessar fundargerðir hafi farið fram hjá borgarstjóra í heilt ár hefur hann svo sannarlega brugðist eftirlitsskyldu sinni enda samþykkti hann allar þessar fundargerðir,“ segir Björn.
Í skýrslu Innri endurskoðunar segir að borgarstjóri „sem næsti yfirmaður skrifstofustjóra SEA [skrifstofu eigna og atvinnuþróunar], hefði átt að gegna þeirri stjórnunarlegu skyldu að fara yfir veruleg frávik í verkefnum skrifstofunnar.“
„Þetta verður að teljast mikill áfellisdómur yfir störfum borgarstjóra,“ segir Björn Gíslason.