Íranskur þingmaður deyr af völdum Kórónaveiru: Miklu fleiri látnir en gefið er upp

Þingmaður í Íran lést í dag af völdum Kórónaveirunnar, en hann greindist með veiruna fyrir fáeinum dögum. Opinberar tölur segja að níu manns hafi dáið sl. sólarhring, en breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir heilbrigðisstarfsfólki að dánartalan sé miklu hærri og neyðarástand ríki í landinu.

Mohammad Ali Ramazani Dastak, þingmaður fyrir Astana Ashrafieh, var færður á sjúkrahús með flensueinkenni í vikunni. Honum hrakaði mjög fyrir helgi og lést í morgun, að sögn yfirvalda þar í landi.

Samkvæmt opinberum tölum hafa nú 43 látist í landinu og 593 sýkst. Það stemmir engan veginn við tölfræði um Kórónaveiruna annars staðar í heiminum og bendir til þess að miklu fleiri hafi smitast af veirunni í Íran en yfirvöld vilja vera láta.

Og það sem meira er: BBC hefur eftir heilbrigðisstarfsfólki að tala látinna sé að minnsta kosti 210. Flestir frá höfuðborginni Teheran og hinni helgu borg Qom.

Talsmaður íranska heilbrigðisráðuneytisins sakaði BBC í morgun um að dreifa lygafréttum.