Fjórir, hið minnsta, eru í haldi þýsku lögreglunnar grunaðir um að ætla að sprengja hina merku Kölnardómkirkju í loft upp á gamlárskvöld. Kirkjan er eitt helsta tákn kristinnar trúar í Evrópu og fjölsóttasti ferðamannastaður landsins.
Lögregluyfirvöld segja að hryðjuverkamennirnir hafi ætlað að sprengja upp bíl í kjallara undir hinni 800 ára dómkirkju við stendur við ána Rín meðan helgihald stæði þar yfir um áramótin. Þrennt var hneppt í gæsluvarðhald skömmu fyrir áramót og sagði Frank Wissbaum, lögreglustjóri í Köln, að það væri mikilvægt að þau gætu ekki átt innbyrðis samskipti. Öll þrjú eru sögð hafa tengsl við Tadsíka um þrítugt sem tengist hryðjuverkasamtökum Íslamska ríkisins, en sá var handtekinn og hnepptur í gæsluvarðhald á aðfangadag.
Dómkirkjan í Köln er ein þekktasta dómkirkja veraldar og viðkomustaður kristinna pílagríma hvaðanæva úr veröldinni. Hún er á heimsminjaskrá UNESCO.
Fram kemur á Wikipedia, að ein mesta gersemi dómkirkjunnar sé helgiskrín vitringanna þriggja ásamt líkamsleifum þeirra. Skrínið sjálft er 153 cm hátt, 220 cm langt og 110 cm breitt. Það er gert úr silfri og er gullhúðað. Hliðarnar eru settar gimsteinum og eru skreyttar gullhúðuðum styttum. Formið er eins og kirkjuskip í laginu. Það er þó innihaldið sem er öllu verðmætara, en það eru líkamsleifar vitringanna þriggja sem færðu Jesúbarninu gjafir. Líkamsleifar þeirra bárust frá Konstantínópel til Mílanó. 1164 herjaði Friðrik Barbarossa keisari á Milano og hertók hana. Hann gaf erkibiskupinum frá Köln, Reinhard von Dassel, líkamsleifar vitringanna, sem flutti þær til Kölnar. Stuttu seinna var helgiskrínið smíðað og leifar vitringanna settar þar í. Æ síðan hefur fyrirrennari dómkirkjunnar og síðar hún verið einn mesti pílagrímsstaður í Evrópu.
Þýska lögreglan kveðst vinna náið með lögregluembættum í öðrum Evrópulöndum og voru fjöldasamkomur til stuðnings Palestínu víða bannaðar til þess að koma í veg fyrir uppþot og óeirðir. Gyðingaandúð hefur farið vaxandi í mörgum löndum Evrópu og hafa mótmælendur, margir hverjir múslimar sem sest hafa að í Evrópu, mótmælt stuðningi ríkja Evrópusambandsins við stríðsaðgerðir Ísraela gegn Hamas á Gasa.