Ísland hafi lagalegan rétt til að „segja nei“, en það hafi pólitískar afleiðingar

Stefán Már Stefánsson lagaprófessor ásamt útvarpsstjóranum Arnþrúði Karlsdóttur. / Útvarp Saga.

„Ef að við innleiðum allan orkupakka 3, þá felst í því, að mínu mati, framsal á ríkisvaldi sem gengur lengra en stjórnarskráin heimilar. En eins og þetta er lagt upp, þá erum við ekki að gera það“, sagði Stefán Már Stefánsson, prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands í viðtali á Útvarpi Sögu í gær, þar sem hann og Arnþrúður Karlsdóttur fóru saman yfir fyrirliggjandi tillögu að þingsályktun um orkupakka 3 og álitsgerð sem hann og Friðrik Árni Friðriksson Hirst unnu að beiðni stjórnvalda.  

Hann segir umræðuna ekki vera um framsal á fullveldi, heldur ríkisvaldinu. „Við erum að innleiða orkupakkann eins og hann stendur nú, miðað við stöðuna á Íslandi, sem er að grunnvirki [t.d. sæstrengur] eru ekki komin. Löggjafinn lofar sjálfum sér að ef það verða einhver áform um að byggja grunnvirki yfir landamæri, að þá verði farið í aðra stjórnarskrárlega rýni, áður en að slík ákvörðun er tekin. Þetta er punkturinn í þessari þingsályktun.“

Sérfræðingar í lögum, sem Stefán Már sagði „mjög góða“, þeir Davíð Þór Björgvinsson, Skúli Magnússon, Birgir Tjörvi Pétursson og Ólafur Jóhannes Einarsson, töldu að ekki væri um stjórnskipuleg álitamál að ræða varðandi innleiðingu 3ja orkupakkann á Íslandi.

Niðurstaða álitsgerðar Stefáns Más og Friðriks Árna var á annan veg og „íhaldssamari“. Þeir telja að ekki séu forsendur til að Ísland aflétti stjórnskipulegum fyrirvara við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn, „nema tryggt sé að reglugerð (EB) nr. 713/2009 verði innleidd í íslenskan rétt á þann hátt að samræmist stjórnarskránni.“

„Fordæmalaust valdaframsal“ sem gæti skapað ríkinu bótaskyldu

Á meðal þess sem kemur fram í álitsgerð Stefáns Más og Friðriks Árna er að lagasetning sem brýtur gegn stjórnarskrá, geti skapað íslenska ríkinu bótaskyldu gagnvart lögaðilum og einstaklingum, allt niður í einstaka kaupendur að orku. Óbreytt innleiðing þess hluta 3ja orkupakkans, sem varðar tengingu við evrópskan orkumarkað með grunnvirki, myndi fela í sér fordæmalaust valdframsal til alþjóðlegra stofnana á grundvelli EES-samningsins. Vafamál séu um hvort stjórnarskráin leyfi slíkt valdaframsal.

Þeir telja jafnframt að valdheimildir Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) séu ekki nægilega vandlega skilgreindar, og að grunnreglur ESB er varða fjórfrelsið gætu virkjast við nýtingu auðlinda, með möguleika á afleiddri löggjöf ESB sem skerði valdheimildir ríkja yfir eigin auðlindum.

„Verði þetta til þess að ríkisvald verði framselt, þá verður að vera mjög vel skilgreint hvaða vald það er“, var á meðal þess sem Stefán Már sagði í þættinum.

Sem mögulega lausn lögðu þeir til að þriðji orkupakkinn verði innleiddur í íslenskan rétt, en með lagalegum fyrirvara um að ákvæði hans um grunnvirki yfir landamæri öðlist ekki gildi. Grunnforsenda þess væri að þriðji orkupakkinn legði ekki skyldur á Ísland til að koma á fót grunnvirkjum yfir landamæri.

Tæki Ísland ákvörðun um að leggja grunnvirki yfir landamæri, yrðu ákvæði þriðja orkupakkans um grunnvirki yfir landamæri tekin að nýju til skoðunar, meðal annars með tilliti til þess hvort þau samrýmdust stjórnarskránni. 

Ísland hafi líka lagalegan rétt til að „segja nei“, en það hafi þá pólitískar afleiðingar og ekki sé vitað hverjar þær verði. Tiltölulega auðvelt sé að segja EES-samningnum upp. Um það hvort sé hægt að draga sig út úr einstaka ákvörðunum sem hafa verið teknar, segir hann að það sé erfitt, sérstaklega ef þær hafi staðist stjórnarskrá.

Telur að gengið hafi verið hreint til verks varðandi fyrirvara

Hinn 20. mars sl. áttu utanríkisráðherra og framkvæmdastjóri orkumála hjá framkvæmdastjórn ESB viðræður vegna málsins. Í kjölfarið var gefin út sameiginleg fréttatilkynning þar sem staðfestur var sameiginlegur skilningur þeirra á þeirri sérstöðu sem Ísland nýtur gagnvart sameiginlegum orkumarkaði.

Raforkukerfi Íslands sé eins og stendur ótengt og einangrað. Í því ljósi hafi þau ákvæði sem varða viðskipti og grunnvirki fyrir raforku yfir landamæri, ekki gildi eða neina raunhæfa þýðingu fyrir Ísland.

Ákvæði um ACER (Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði) og reglugerðin um raforkuviðskipti yfir landamæri hafi því ekki nein merkjanleg áhrif á fullveldi Íslands í orkumálum. Gildandi ákvæði 3ja orkupakka ESB hafi engin áhrif á fullveldi ríkisstjórnar Íslands yfir orkuauðlindum Íslands og ákvörðunarvald yfir nýtingu og stjórnun þeirra. Ákvörðunarvald um raforkustrengi milli Íslands og innri raforkumarkaðar ESB liggi alfarið hjá íslenskum stjórnvöldum.

Stefán Már telur, að gengið hafi verið hreint til verks, fyrirvarar um uppsetningu grunnvirkis hafi verið gerðir til sameiginlegu EES-nefndarinnar og að fyrir liggi sameiginlegur skilningur á milli utanríkisráðherra og framkvæmdastjóra orkumála hjá ESB, um forræði Íslands skv. þeim.

Stefán Már telur að „þær yfirlýsingar“ ættu að vera jafngildar því að fyrirvararnir hefðu verið samþykktir inn í ákvörðun sameiginlegu nefndar EES, þær jafngildi ekki lögfræðilegum gögnum en hafi engu að síður vægi. Hann gagnrýnir þó að fyrirvararnir hafi ekki verið settir inn í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, frá 5. maí 2017, þegar 3ji orkupakkinn var tekinn upp í EES-samninginn.

„Mér finnst afar ósennilegt að ESA fari af stað með einhver mál“, segir Stefán Már, en virðist þó ekki telja það alveg útilokað. Hann segir að ESA gæti farið í mál, „nákvæmlega eins og þeir fóru í Icesave-málið“, telji þeir um samningsbrot að ræða þrátt fyrir undanþágur settar með fyrirvörum íslenskra stjórnvalda, þó svo að hann telji sjálfur svo ekki vera. Þá geti reynt á gildi fyrirvaranna og gildi niðurstöðu dómsins gagnvart stjórnarskrá Íslands, félli hann Íslandi í óhag.

Hann telur ekki endilega rétt að efast um að fyrirvarar og undanþágur haldi, og nefnir sem dæmi undanþáguna sem Ísland hefur vegna jarðgass. Jafnframt kom fram að ACER geti aldrei fengið bein völd á Íslandi, EES-samningurinn geri það að verkum að Ísland yrði ávallt að fást við ESA.

Hærra raforkuverð og umhverfisleg áhrif, en meira orkuöryggi og hærri landsframleiðsla

Fram kom í þættinum að gert hafi verið ráð fyrir Íslandi sem hluta af evrópskum orkumarkaði í sviðsmyndagreiningu sem ESB lét vinna fyrir orkumál sambandsins til ársins 2050.

Ef stjórnvöld tækju ákvörðun um tengingu íslensks raforkumarkaðar við þann evrópska með sæstreng, hefði það margvísleg áhrif hér á landi, skv. skýrslum starfshóps iðnaðar- og viðskiptaráðherra frá í júlí árið 2016. Þær fela í sér heildstæða kostnaðar- og ábatagreiningu og mat á áhrifum sæstrengs á efnahag, heimili og atvinnulíf. Sæstrengur myndi leiða til hækkunar á raforkuverði innanlands vegna tengingar við innri raforkumarkað ESB og evrópskt raforkuverð.

Á móti myndi orkuöryggi aukast og jákvæð áhrif gætu orðið á landsframleiðslu um 1,2–1,6%, að því gefnu að sérsniðið viðskiptalíkan, stuðningskerfi og regluverk yrði unnið fyrir verkefnið (sem væri fjárhagsleg forsenda þess).

Þá þyrfti að fjárfesta í nýjum virkjunum og styrkingu flutningskerfisins hér á landi með tilheyrandi kostnaði og umhverfislegum áhrifum.