Öryggis- og varnarmál, málefni norðurslóða og alþjóðlegt viðskiptaumhverfi voru meðal helstu umræðuefna á tvíhliða fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkisráðherra, og Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, sem fram fór í Berlín fyrr í dag.
Á fundinum ræddu ráðherrarnir fyrirhugaðan utanríkisráðherrafund Atlantshafsbandalagsins, sem haldinn verður í Washington 4. apríl í tilefni af 70 ára afmæli bandalagsins. Ennfremur greindi Guðlaugur Þór frá undirbúningi fyrir formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu sem hefst í maí, en Þýskaland er áheyrnaraðili að ráðinu og hafa þarlendir ráðamenn sýnt málefnum norðurslóða athygli í auknum mæli.
Samskiptin til austurs og vesturs voru jafnframt til umfjöllunar auk þess sem alþjóðleg viðskipti og málefni Heimsviðskiptastofnunarinnar voru fyrirferðamikil á fundinum. Evrópumálin og Brexit voru rædd og þá fór Guðlaugur Þór yfir stöðu og mikilvægi EES samningsins, að því er segir á vef utanríkisráðuneytisins.
Þýskaland komið í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna
Málefni Sameinuðu þjóðanna voru sömuleiðis til umræðu, en Þýskaland tók nýverið sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Einnig kom mannréttindaráðið til umfjöllunar og frumkvæði Íslands í að leiða hóp 36 ríkja, þar með talið Þýskaland, í gagnrýni á stöðu mannréttinda í Sádi-Arabíu. Þá gerði Guðlaugur Þór grein fyrir helstu áherslum Íslands í norrænu samstarfi, sem Ísland er í formennsku fyrir á árinu.
„Ísland mætir ávallt hlýhug og áhuga í Þýskalandi og mikilvægt er að rækta tengsl þessara vinaþjóða. Við deilum sömu gildum og sýn á alþjóðavettvangi, meðal annars innan Atlantshafsbandalagsins og Sameinuðu þjóðanna. Þýskaland er ennfremur í þungamiðju allrar þróunar í Evrópu. Tvíhliða samskipti Íslands og Þýskalands standa jafnframt í miklum blóma, meðal annars á sviðum viðskipta, fjárfestinga og ferðamennsku, en einnig í menningarmálum og íþróttastarfi. Það er margt og bjart framundan í samskiptum ríkjanna,“ segir Guðlaugur Þór.