Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, heimsótti Akureyri í dag og skrifaði ásamt Eyjólfi Guðmundssyni, rektor Háskólans á Akureyri, undir þjónustusamning milli Háskólans og utanríkisráðuneytisins.
Samningurinn felur Háskólanum meðal annars að vinna að því að styrkja þekkingargrunn íslensks háskólasamfélags um málefni norðurslóða og efla ungmenni á norðurslóðum. Markmið samningsins er enn fremur að styðja við leiðtogahlutverk Íslands hvað varðar vinnu sérfræðihóps Norðurskautsráðsins um heilsufar á norðurslóðum og ekki síst að auka skilning á störfum ráðsins almennt. Ísland fer með formennsku í Norðurskautsráðinu um þessar mundir og gildir samningurinn á formennskutímanum.
,,Norðurslóðir eru í örri þróun og ljóst að með sjálfbærni að leiðarljósi þarf Ísland að tryggja sína hagsmuni á svæðinu. Það er því mikilvægt að þekking á þeim málum byggist upp hér á landi,” sagði Guðlaugur Þór. Hann minnti einnig á þá sérstöðu Akureyrarbæjar að vera eina sveitarfélag landsins sem nær að og upp fyrir heimskautsbaug og kvað það ánægjulegt að tryggður hafi verið viðbótarstuðningur til að styðja við þá þekkingarmiðstöð norðurslóðamála sem byggst hefur upp á Akureyri.
Samhliða formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu hefur að frumkvæði utanríkisráðherra verið skipuð þingmannanefnd allra flokka um endurskoðun norðurslóðastefnu Íslands sem samþykkt var samhljóða í mars 2011. Auk þess hefur utanríkisráðherra skipað starfshóp um efnahagsþróun á Norðurslóðum.
Fulltrúar beggja hópa áttu í dag fundi með fulltrúum norðurslóðasamfélagsins og atvinnulífsins á Akureyri. Gert er ráð fyrir að báðir hópar skili niðurstöðu fyrir vorið 2021, að því er fram kemur á vef utanríkisráðuneytisins.