Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra vonast til þess að markviss skref verði stigin í einkavæðingu bankakerfisins á kjörtímabilinu, enda sé ekki æskilegt að ríkið sé jafn stór eignaraðili í fjármálakerfi og raun ber vitni.
Þetta kom fram í máli fjármálaráðherra í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins. Hann sagði ekki hægt að gera ráð fyrir að bankarnir geti greitt jafn mikinn arð til framtíðar eins og þeir hafa gert undanfarin ár. Bankar séu að breytast og fjármálaþjónusta almennt.
Bjarni kvaðst sjá fyrir sér að allur eignarhlutur ríkisins í Íslandsbanka verði seldur og meirihluti hlutafjár í Landsbankanum. Hann tekur undir með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra um að æskilegt sé að ríkið eigi áfram ráðandi hlut í Landsbankanum, kannski um 30-40%.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, segir:
„Eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum er það umfangsmesta í Evrópu og vill ríkisstjórnin leita leiða til að draga úr því. Ljóst er þó að ríkissjóður verður leiðandi fjárfestir í að minnsta kosti einni kerfislega mikilvægri fjármálastofnun.“
Í sáttmálanum er jafnframt kveðið á um að stefnumarkandi ákvarðanir í þessum efnum verði teknar þegar fyrir liggur Hvítbók um fjármálakerfið. Sú bók var einmitt kynnt á dögunum og því má búast við að stór skref verði stigin í einkavæðingu bankanna áður en langt um líður.