Íslandsmet í ómerkingu ummæla

Atli Már Gylfason blaðamaður. / Ljósmynd: DV.

Aldrei fyrr í Íslandssögunni hafa jafn mörg ummæli í einu máli verið dæmd dauð og ómerk, hefur Viljinn eftir lögfróðum mönnum, sem segja jafnframt að dæmdar hafi verið þær hæstu miskabætur sem um getur hérlendis í máli af þessu tagi.

Hér er vísað til dóms sem kveðinn var upp á dögunum í Landsrétti í áfrýjunarmáli Guðmundar Spartakusar Ómarssonar gegn Atla Má Gylfasyni, f.v. blaðamanni á fréttamiðlinum Stundinni, og Útgáfufélaginu Stundin ehf. Þau höfðu áður verið sýknuð af kröfum hans vegna umfjöllunar Atla Más og Stundarinnar í héraðsdómi.

Stefnandi, Guðmundur Spartakus, og lögmaður hans, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, hafði krafist réttargæslu vegna alls 30 ummæla sem birtust í tilteknum fjölmiðlum, að honum yrðu dæmdar miskabætur, og að forsendur dómsins yrðu birtar í tímaritinu Stundinni og á vefmiðli þess.

Dómurinn féllst á ómerkingu 22ja af 30 ummælanna, miskabætur upp á samtals 3,6 milljónir króna, og að Stundin skyldi birta forsendur dómsins innan 14 daga frá uppkvaðningu hans.

Enn hefur Stundin ekki birt forsendur dómsins, því, en vika er enn til stefnu áður en að heimilt verður að beita miðilinn dagsektum upp á 50 þúsund krónur, hafi dómsorðin ekki verið birt fyrir þann tíma.

Í dómi Landsréttar kom fram að með hluta umfjöllunar sinnar hafi Atli Már borið Guðmund Spartakus sökum um alvarlegan og svívirðilegan glæp, sem varði að lögum ævilöngu fangelsi, án þess að nokkuð lægi fyrir um að Guðmundur Spartakus hefði verið kærður fyrir hið ætlaða brot, hvað þá að ákæra hafi verið gefin út og dómur fallið. Engin gögn eða upplýsingar í málinu styddu fullyrðingar Atla Más, heldur væri þar eingöngu vísað til nafnlauss heimildarmanns.

Slíkar órökstuddar ásakanir eigi Guðmundur Spartakus ekki að þurfa að þola, og byggði dómurinn m.a. á því. Dómurinn féllst ekki á ómerkingu átta af 30 ummælanna, þar eð þau hafi verið endursögn ummæla úr öðrum fjölmiðlum.

Saklaus uns sekt er sönnuð

Fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki í lýðræðislegu samfélagi við að miðla til almennings upplýsingum um mikilvæg málefni, segir í dómnum, og að ekki verði efast um að efni fréttarinnar hafi átt erindi við almenning. Við slíka umræðu verði þó að gæta að friðhelgi einkalífs þeirra sem um er fjallað eins og kostur er, þó það vegist á við tjáningarfrelsið, en bæði réttindin eru varin í stjórnarskrá.

Vísað er í siðareglur Blaðamannafélags íslands um vöndun upplýsingaöflunar, úrvinnslu og framsetningu, svo sem kostur er, og að sýna skuli fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Forðast beri að valda saklausum og þeim sem eiga um sárt að binda, óþarfa sársauka og vanvirðu. Blaðamenn skuli í frásögnum af dóms- og refsimálum virða meginreglu laga um að hver maður sé talinn saklaus þar til sekt hans hafi verið sönnuð.

Þótt varast beri að setja frelsi blaðamanna og fjölmiðla til umfjöllunar um einstök mál takmörk með miskabótum sem reynst geti þeim íþyngjandi, beri fjölmiðlaveita ábyrgð á greiðslu skaðabóta sem starfsmanni hennar er gert að greiða. Taka verði tillit til þess að stefndi hafi kosið að fjalla um málið með þeim hætti að við blasti að hann átti við áfrýjanda. Jafnframt hafi hann birt ljósmynd af vegabréfi áfrýjanda með umfjöllun sinni.

Dóm Landsréttar má lesa hér. 

Hin ómerktu ummæli má lesa hér að neðan:

  1. „Ónefndur Íslendingur er sagður hafa sýnt höfuðið á Skype.“
  2. „ónefndan Íslending halda á afskornu höfði hans í samtali á Skype og hrósað sér af því að hafa myrt hann“.
  3. „Sá ónefndi segir að það hafi slegið í brýnu á milli þeirra með þeim afleiðingum að hann hafi ákveðið að drepa A“.
  4. „Ónefndi Íslendingurinn sagðist einfaldlega ekki hafa getað gert annað en að drepa A“.
  5. „Hér er hann. Hér er A,“ sagði ónefndi Íslendingurinn og lyfti plastpokanum í átt á vefmyndavélinni á fartölvunni“.
  6. „Hann sá afskorið höfuð í pokanum. Höfuð sem líktist A. Illa farið höfuð sem blóðið draup enn úr. Sundurskorið andlit, með brotinn kjálka og annað augað hékk út úr hauskúpunni“.
  7. „Sá ónefndi sagðist hafa fengið nóg af A og hér hafi höfuð hans endað. Afskorið í glærum plastpoka“.
  8. „ónefnda Íslendinginn sem Jón sagðist hafa séð halda á afskornu höfði A“.
  9. „Íslendingurinn í Paragvæ sem vitni segir hafa sýnt höfuð A á Skype“.
  10. „átti hann samtal við ónefnda Íslendinginn í Paragvæ daginn eftir, sem samkvæmt vitnisburði Jóns, sagðist hafa „ákveðið að drepa A““.
  11. „með þessum ónefnda Íslendingi sem að er talinn hafa myrt A“.
  12. „þessum ónefnda Íslendingi sem að er sagður hafa myrt hann og sýnt höfuð hans á Facebook“.
  13. „Og sko, það er nú alveg hægt að tengja meira að segja þessi tvö mál saman, þetta ógeðslega nauðgunarmál … og þennan Íslending sem að hérna ja er talinn hafa haldið þarna á afskornu höfði A“.
  14. „Og í raun og veru er hægt að tengja sko þessi nauðgunarmál … og þetta mál með A sko að bæði maðurinn sem að hérna var talið að myndi gera mér eitthvert mein og maðurinn sem var talinn hafa haldið þarna höfði A bjó hjá þessum nauðgara þarna á meðan á dvöl hans stóð hér á Íslandi“.
  15. „að hann hafi verið myrtur af Íslendingi í Paragvæ og og sá morðingi gengur laus á Íslandi í dag“.
  16. „og eftir stendur að A var að öllum líkindum myrtur úti í Paragvæ í algjörri lögleysu af Íslendingi sem að þar var atkvæðamikill í fíkniefnasmygli og var einn af þriggja manna teymi sem að við frá Stundinni greinum frá sem að stóðu að innflutningi á tugum kílóum fíkniefna frá Suður-Ameríku til meginlands Evrópu með hjálp íslenskra burðardýra sem að síðan var breytt yfir í erlend burðardýr þegar það átti að flytja þessi fíkniefni til Íslands“.
  17. „og þessi ónefndi Íslendingur sem við tölum um í greininni sem að við teljum að séu allar líkur á að hafi myrt A“.
  18. „og þar nær hann í glæran plastpoka sem að í  er afskorið höfuð sem að blóðið draup enn innan úr og það var illa farið og skorið og hérna brotinn kjálkinn og, og augað hékk út úr hauskúpunni“.
  19. „þar minnist hann á nafn þessa Íslendings sem talið er að hafi myrt A“.
  20. „að það hafi Íslendingur drepið A og afhöfðað hann“.
  21. „og þá kemur upp úr krafsinu að morðinginn er staddur á Íslandi“.
  22. „um götur Reykjavíkurborgar gangi hugsanlega morðingi A.“