Íslendingar sem koma að utan fara í sóttkví en ferðamenn valsa um

Margir hafa undrast þá ráðstöfun íslenskra stjórnvalda að skikka þá Íslendinga og aðra sem búsettir eru hér á landi sem koma frá skilgreindum áhættusvæðum til að fara í tveggja vikna sóttkví við komuna hingað til lands, en aðrir farþegar vélanna (oftast ferðamenn) fái að valsa frjálst um landið þótt einhverjir kunni mögulega að bera með sér Kórónaveiruna.

Undrunin hefur ekki minnkað í ljósi þess að allir sex, sem greinst hafa með smit hér á landi sl. sólarhringa, eru núkomnir frá skilgreindu hættusvæði á Ítalíu.

Hin opinbera skýring sem sóttvarnarlæknir sagði frá á blaðamannafundi í dag er að erlendir ferðamenn séu ólíklegri smitberar en Íslendingar, þar sem þeir eigi allt annað samneyti við samfélagið. En Viljinn hefur einnig eftir embættismönnum, sem ekki vilja láta nafns síns getið, að óframkvæmanlegt sé talið að setja mörg hundruð eða þúsundir ferðamanna í sóttkví og það gæti algjörlega lamað ferðaþjónustuna í landinu.

Skilgreind áhættusvæði nú, samkvæmt upplýsingum frá Embætti landlæknis, eru Ítal­ía, Kína, Suður-Kórea og Íran.

Ein þeirra sem undrast þetta verklag er dr. Ólína Þorvarðardóttir, fv. alþingismaður. Hún spyr á fésbók í kvöld hvort þetta sé eitthvert grín og hvort við eigum að trúa slíkum ráðstöfunum.

Dr. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, fv. alþingismaður.

Hún undrast að sóttvarnalæknir telji vart gerlegt að láta eitt yfir alla ganga og þetta sé talin vera ómarkviss aðgerð. Á sama tíma sé almenningur í landinu hvattur til að sýna samfélagslega ábyrgð.

„Þetta hlýtur að vera grín. Ferðamenn frá áhættusvæðum fá semsagt að fara inn á veitingahúsin, í verslanirnar, og sækja sýningarsalina … þeir mega m.ö.o vera allstaðar í almannarýminu …. en íslenskir ríkisborgarar sem eru að koma frá sömu svæðum eru sendir i sóttkví. Hvaða VÍSINDI liggja að baki svona ráðaleysi?

Hvaða heilvita manni dettur það í hug að hægt sé að fara hálfa leið í þessu?“ spyr Ólína Þorvarðardóttir.