Íslensk stjórnvöld ráða Íslendingum frá ferðalögum og hvetja Íslendinga á ferðalagi erlendis til að íhuga að flýta heimför. Er þetta gert að tillögu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra í ljósi þeirra yfirgripsmiklu ráðstafana sem erlend ríki hafa gripið til til að hefta útbreiðslu COVID-19 og kunna að hafa áhrif á Íslendinga erlendis.
Varla þarf að taka fram, að áskorun af þessu tagi á sér fá fordæmi ef nokkur í Íslandssögunni. En við lifum á áhugaverðum tímum og hvarvetna grípa nú ríki heims til ráðstafana sem fram að þessu hefðu þótt óhugsandi.
Mörg erlend ríki hafa undanfarinn sólarhring gripið til þess að loka landamærum og skylda alla sem þangað koma í sóttkví. Ekki er hægt að útiloka að fleiri ríki muni grípa til svipaðra ráðstafana á næstu dögum.
Það er mat utanríkisráðuneytisins, að höfðu samráði við forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra, sóttvarnarlækni og almannavarnir, að tímabært sé að ráða Íslendingum formlega frá því að leggja upp í ferðalög. Þá eru Íslendingar á ferðalagi erlendis beðnir að íhuga hvort ástæða sé til að flýta heimför með tilliti til ofangreindra þátta og Íslendingar búsettir erlendis hvattir til að kanna rétt sinn til heilbrigðisþjónustu.
„Með þessum ráðleggingum er brugðist við þeirri stöðu sem upp er komin vegna viðbragða margra ríkja við faraldrinum sem nú geisar. Þær hafa að sjálfsögðu mikil áhrif á samfélag okkar og stöðu Íslendinga á ferðalögum erlendis,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
„Víða eiga Íslendingar á hættu að verða innlyksa eða lenda í sóttkví við erfiðar aðstæður. Ekki er víst hvaða aðgang og réttindi Íslendingar munu hafa að heilbrigðisþjónustu auk þess sem heilbrigðiskerfi í mörgum ríkjum anna ekki álagi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. „Í því ljósi höfum við ákveðið að ráða Íslendingum gegn ferðalögum erlendis og þeim sem eru á ferðalagi erlendis að íhuga að snúa heim fyrr en ella.“
Áfram gilda skilgreiningar sóttvarnarlæknis um áhættusvæði og tilmæli hans um að Íslendingar sem þaðan komi fari í sóttkví. Ekki er gert ráð fyrir að takmarka ferðir erlendra ferðamanna hingað til lands.
Utanríkisráðuneytið og sendiskrifstofur Íslands hafa unnið að því síðasta sólarhring að afla upplýsinga frá stjórnvöldum ríkja um hvernig flugi og öðrum samgöngum verður háttað yfir landamæri til að tryggja að Íslendingar komist heim. Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hefur aukið símsvörun og svörun fyrirspurna sem berast með tölvupósti á hjalp@utn.is. Þá eru Íslendingar erlendis hvattir til að skrá sig í grunn borgaraþjónustunnar á www.utn.is til að hægt sé að miðla til þeirra upplýsingum þegar þær berast.