Íslensk húsgögn í fyrsta sinn í öndvegi á Bessastöðum

Á myndinni eru, talið frá vinstri, Erla Sólveig Óskarsdóttir, húsgagnahönnuður, Ólöf Jakobína Ernudóttir, hönnuður, Ásgeir H. Guðmundsson, fjármálastjóri Á. Guðmundsson, Guðmundur Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Á. Guðmundsson, Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, Skafti Þ. Halldórsson frá Random Ark, Örn Þór Halldórsson, forstjóri Random Ark, Eyjólfur Pálsson, forstjóri Epal, Anna Margrét Halldórsdóttir frá Random Ark, og Íva Rut Viðarsdóttir, innanhússarkitekt. Myndina tók Haraldur Guðjónsson.

Samtök iðnaðarins fagna því að einn af sölum Bessastaða hefur verið helgaður íslenskri hönnun og húsgagnagerð. Forseti Íslands tók við íslenskum húsgögnum sem verða til sýnis og notkunar í suðurstofu Bessastaða síðastliðinn föstudag.

Húsgögnin, sem eru verk íslenskra hönnuða og framleidd á vegum íslenskra fyrirtækja, voru afhent forseta Íslands á grundvelli samkomulags við Samtök iðnaðarins og lýsti forseti í ávarpi ánægju með þessi kaflaskil en hingað til hafa nánast öll húsgögn á forsetasetrinu komið frá öðrum löndum. Framvegis munu þeir fjölmörgu gestir, sem heimsækja Bessastaði, sjá þar glæsileg verk innlendra hönnuða.

„Forseti Íslands er verndari átaksins Íslenskt – gjörið svo vel og liður í því átaki er að íslensk húsgögn verði sýnileg í opinberum byggingum,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

„Samstarfið við forseta Íslands hefur verið einkar ánægjulegt og einkennst af áhuga og velvilja. Á Bessastöðum hefur verið stillt upp á fallegan hátt íslensku handbragði og hönnun. Það á að vera sjálfsagt mál að íslensk húsgögn sjáist í öllum opinberum byggingum hér á landi og þá ekki síst þar sem almenningur og erlendir gestir fara um. Aðrir ráðamenn þurfa að huga að þessu í ríkara mæli. Við eigum að vera stolt af því sem er hannað og framleitt hér á landi og hvetja til frekari verka á því sviði. Þannig má styrkja ímynd Íslands og rækta orðspor okkar með tilheyrandi verðmætasköpun. Þá er í auknum mæli horft til umhverfisverndar og kolefnisfótspors en þar geta íslenskir framleiðendur staðið framarlega,“ bætir hann við.