Íslensku ofurvextirnir sem eru allt að drepa

Hagfræðideild Landsbankans hefur birt þessa mynd af stýrivöxtum á Íslandi og í helstu viðskiptalöndum okkar, en ekki er líklegt að hún gleðji marga landsmenn.

Þessa dagana blasir þyngri greiðslubyrði við mörgum heimilum, hægt hefur á byggingamarkaði þrátt fyrir mikla spurn eftir húsnæði, ferðamönnum fjölgar ekki eins og áður og þeir dvelja skemur og eyða minnu og margar atvinnugreinar finna verulega fyrir ofurháu vaxtastigi og eiga erfitt með að verjast krefjandi aðstæðum.

„Flestir seðlabankar þróaðra ríkja hækkuðu vexti til þess að berjast við aukna verðbólgu í kjölfar heimsfaraldursins. Í síðustu viku reið Seðlabanki Evrópu á vaðið og lækkaði vexti um 0,25 prósentustig. Þar sem danska krónan er föst við gengi evru lækkaði danski seðlabankinn vexti strax í kjölfarið.

Síðar í mánuðinum eru vaxtaákvarðanir hjá bandaríska seðlabankanum og Englandsbanka, en það er talið ólíklegt að þeir lækki vexti að svo stöddu,“ segja hagfræðingar Landsbankans.