Ítalir loka öllum skólum, Frakkar að fara sömu leið

Ítölsk stjórnvöld hafa ákveðið að loka öllum skólum í hálfan mánuð hið minnsta vegna Kórónaveirunnar sem geysar í landinu. Frakkar eru að fara sömu leið.

Franski menntamálaráðherrann segir að til að byrja með hafi 120 skólum í landinu verið lokað og til skoðunar sé að loka fleiri menntastofnunum á öllum skólastigum.

Lokunin tekur til 35 þúsund námsmanna, einkum í nágrenni við höfuðborgina París. Þá hefur verið lagt bann við skólaferðalögum um óákveðinn tíma í landinu.

Ítalir gengu lengra í dag með algerri lokun skóla á öllum skólastigum, enda er tala látinna á örfáum dögum komin upp í 79 og sífellt er tilkynnt um ný staðfest smit.

Ekki er lengur miðað við svonefnd hættusvæði á Norður Ítalíu, heldur tekur lokunin til alls landsins og gildir að minnsta kosti í hálfan mánuð.

Staðfest smit á Íslandi eru nú orðin hlutfallslega fleiri en í báðum þessum löndum, en enn sem komið er, eru þau bundin við fólk sem smitaðist á ferðalögum erlendis.