„Frá því að þessi ríkisstjórn var mynduð hef ég talað fyrir því að beina frekar gagnrýni beint að Bjarna Ben og íhaldinu fremur en Katrínu og VG. En nú er mér nóg boðið,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir fv. forsætisráðherra.
Jóhanna tjáir sig um öryrkjamálið svokallaða, það er tíðindi gærkvöldsins um að ekki verði staðið við fyrirhuguð framlög til öryrkja í fjárlagafrumvarpinu, þess í stað verði lagðar fram tillögur meirihluta fjárlaganefndar á morgun um 1,1 milljarða króna lækkun.
„Það verður prófsteinn á forsætisráðherra og VG hvort þau láta það yfir sig ganga að skerða framlög til öryrkja um rúman milljarð frá því sem boðað var í fjárlagafrumvarpinu,“ segir Jóhanna.
Á fésbók segir forsætisráðherrann fyrrverandi:
„Ég blæs á fyrirslátt fjármálaráðherra um að þetta sé gert vegna þess að kerfisbreytingar á örorkulífeyrisgreiðslum verði ekki tilbúnar um áramótin. Ekkert er auðveldara en að láta þær gilda afturvirkt frá 1. janúar þegar kerfisbreytingin liggur fyrir. Algengar eru til dæmis afturvirkar launahækkanir hjá Kjararáði, eins og allir þekkja.“
Og hún bætir við:
„Nú munu augu allra beinast að forsætisráðherra. Lætur hún þetta yfir sig og sinn flokk ganga – flokk sem í orði a.m.k. segist vera málsvari öryrkja – eða verður þetta staðfesting á því sem margir halda fram, þ.e. að það sé íhaldið sem ræður ferðinni í þessari ríkisstjórn?“